27 apríl 2007

Memento Mori pt 13

Það er við hæfi að hætta þessari vitleysu á þrettánda kafla. En til þess að það sé mögulegt verð ég að segja frá tveim atvikum þar sem munaði litlu að ég og Alli vinur minn ljósameistari yrðum okkur að aldurtila.

Fyrra atvikið átti sér stað í Finnlandi. Við höfðum verið í Tampere að vinna við leiksýningu og þurftum að aka til Helsinki til að fljúga áleiðis heim. Við erum báðir áhugamenn um múmínálfa og ákváðum því að koma við á leiðinni og skoða skemmtigarð kenndan við Múmíndal sem er í skerjagarðinum fyrir utan Turkku. Það eru svipaðar vegalengdir milli þessara borga og þær mynda nokkurnveginn þríhyrning, þar sem maður ekur norður frá Helsinki til Tampere, síðan suðvestur frá Tampere til Turkku og loks austur frá Turkku til Helsinki.

Hins vegar vorum við of góðu vanir eftir fyrsta bíltúinn. Finnar lögðu nýlega flotta hraðbraut frá Helsinki og norður til Tampere og okkur urðu á þau mistök að halda að þannig væru allir vegir í Finnlandi. Þannig að við reiknuðum okkur ferðatíma miðað við að leiðin frá Tampere gegnum Turkku til Helsinki væri glæný sex akreina hraðbraut með mislægum gatnamótum.

Við fengum hins vegar tveggja akreina sveitaveg með tvístefnu og biðskyldu á gatnamótum. Nú voru góð ráð dýr. Það kom ekki til greina að okkar mati að snúa við og sleppa Múmíndalnum svo við gáfum allt í botn. Ég var undir stýri og við vorum á 150km hraða nær alla leiðina. Hægðum að vísu á okkur rétt á meðan við keyrðum fram hjá hryllilegu umferðarslysi þar sem vörubíll hafði skollið framan á fólksbíl. Vörubílstjórinn sat á jörðinni fyrir utan bílinn sinn með hendur um höfuð og grét. Við sáum ekki inn í fólksbílinn því hann var svo illa klesstur en við þurftum þess ekki. Það var augljóst að enginn myndi hafa lifað þetta af.

Skömmu síðar munaði litlu að við færum sömu leið. Ég var að taka fram úr bíl sem rigsaði til hliðar og Alla brá svo mikið þegar hann sá aðeins örfáa sentímetra milli stuðaranna að hann talaði ekki um annað alla leiðina í Múmíndalinn. En sem betur fer tók hann gleði sína á ný þegar við vorum komnir þangað.

Seinna, heima á Íslandi, kom það til að Alli var ráðinn til að sjá um leikmynd og lýsingu á árshátíð Landsbankans sem var haldin í íþróttahöll Hauka í hrauninu í Hafnarfirði. Þar er auðvitað hátt til lofts og vítt til veggja og ég var sendur upp í átta metra háan stillans til að leggja rafmagnskapla eftir endilöngu loftinu. Ég datt niður á sniðuga leið til að færa stillansinn án þess að þurfa að príla niður og ýta honum. Semsagt, ég togaði bara í rafmagnskapalinn og dró sjálfan mig þannig áfram. Þegar ég var kominn út í vegg þurfti ég svo að skipta um átt. Og var eitthvað ekki alveg að hugsa þetta til enda því ég togaði bara í kapalinn þangað til ég heyrði Alla öskra á mig niðri að hætta. Ég sleppti kaplinum strax og fann hvernig stillansinn ruggaði og vóg salt. Þá hafði ég reynt að fara þvert á stefnu hjólanna og var næstum búinn að velta stillansinum, og mér, ofan á hausinn á Alla. Hann var soldið fúll. Ég var í nettu sjokki.

Engin ummæli: