26 apríl 2007

Memento Mori pt 12

Öðru sinni var ég næstum dauður undir stýri en nú um sumar. Ég var að vinna hjá Paul pabba hans Nikka að selja Snapple. Áður en Baugur fór að versla við okkur var Bláa Lónið okkar besti kúnni og í miklu uppáhaldi hjá mér af tveimur ástæðum. Annars vegar var ágætis tilbreyting að fá langan bíltúr öðru hverju - var meira og minna að þvælast með einn og tvo kassa í sjoppur út um allan bæ - og hins vegar var daman sem rak veitingasöluna í Bláa Lóninu alveg meiriháttar sæt og skotin í mér í þokkabót.

Ég hlýt að hafa verið með hugann við hana þegar ég kom upp á Keflavíkurveg á heimleiðinni því ég sá greinilega að risastór vöruflutningabifreið með trailer kom æðandi frá Keflavík á ólöglegum hraða en ég lét sem ekkert sé og ók í veg fyrir hana. Svo sá ég að það væri sennilega banvæn ákvörðun og sveigði á síðustu stundu út í vegarkant.

Vörubifreiðin hafði auðvitað bremsað en rauk framhjá mér, enn á ólöglegum hraða, og bílstjóranum hefur brugðið svona mikið að hann hélt áfram að bremsa og stöðvaðist um 100 metra fyrir framan mig. Stóð þar svo hreyfingarlaus góða stund meðan bílstjórinn jafnaði sig. ÉG hélt að hann myndi kannski koma og berja mig fyrir hálfvitaganginn en eftir smástund ók hann af stað aftur.

Ég beið aðeins og lagði svo af stað.

Engin ummæli: