Memento Mori pt6

Rétt áðan var ég í gamla skólanum mínum, við Hamrahlíð. Þar rifjaðist upp fyrir mér voveiflegt atvik sem gerðist í leiklistartíma árið 1985. Þetta var inni á hátíðarsal skólans. Salurinn er allur klæddur einhverjum ljótasta vegg sem ég man eftir að hafa séð og uppi á sviði eru tvennar dyr á þessum litla vegg. Dyrnar liggja hins vegar ekki að neinu heldur er örmjótt rými milli veggjarins og steypts burðarveggjar sem er þar á bakvið.

Í þessum leiklistartíma vorum vð að mig minnir að vinna með hreyfingar. Ég var á þönum út um allan sal í frjálsum spuna og rak augun í þessar dyr. Datt í hug að það gæti verið sniðugt að fara inn um aðrar og koma svo út um hinar.

Hins vegar vissi ég ekki að það var alls ekki ætlast til þess að maður færi þá leið.

Ég rauk upp á svið, reif upp dyrnar hægra megin og vatt mér inn um þær. Tók nokkur skref í átt að hinum dyrunum, í niðamyrkri auðvitað, en fann þá gólfið hverfa undan fótum mér.

Næsta sem ég vissi var að ég staulaðist út um dyr á geymslukompu á hæðinni fyrir neðan og fossblæddi úr mér.

Það var semsagt gat í gólfinu sem ég datt niður um. Á einum stað stóð endinn á steypustyrktarjárni út í loftið og sá endi stakkst í handarkrikann á mér þegar ég hrapaði niður.

Hefði auðveldlega getað verið hálsinn á mér. Þá hefði sko komið miklu meira blóð.

Ég var sendur í leigubíl á slysó. Steini vinur minn kom með, og það leið yfir hann meðan það var verið að sauma mig saman.

Þegar ég var uppi í MH áðan gat ég ekki stillt mig um að kíkja.

Og það er búið að setja spónaplötu fyrir innan dyrnar, þannig að engum detti í hug að hlaupa bak við falska vegginn að hinum dyrunum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu