Memento Mori pt4

Jájá, ég er ekki alveg hættur að detta og meiða mig. Nú síðast í gær var ég að hlaupa á eftir strætó og leit um öxl til að sjá hvað væri langt í hann, missti fótanna og skall mjög harkalega í götuna. Hægri olnboginn á mér er blár, marinn og bólginn, fína úlpan mín rifin og svo er ég allsvakalega aumur í kjálkanum. Vaknaði í nótt og var barasta alveg sárkvalinn, tók 800mg af Íbúfen og sofnaði eins og skot.

En þetta var nú samt varla lífshættulegt. Það var hins vegar atvikið sem ég ætla að segja frá í dag.

Ég hef verið eitthvað tíu eða ellefu ára og var á leiðinni af Nesinu niður í Vesturbæ til að rukka fyrir Dagblaðið, sem ég bar þá út. Ég beygði af Suðurströnd niður á Nesveg, en í þá daga var þar nokkuð brött brekka. Núna er búið að jafna allt út og byggja Eiðistorg en það er önnur saga.

Ég man eftir því að sjá stóran stein rétt fyrir framan framhjólið á þriggja gíra Peugeot kappaksturshjólinu mínu. Svo man ég ekki meir. En framhjólið skall á steininum, reiðhjólið fór í kollhnís en ég lenti mjög illa á hausnum, fékk alvarlegan heilahristing og braut... viðbeinið! Mynduð þið trúa því?

Vinkona foreldra minna kom akandi á vettvang, sá mig liggjandi í blóði mínu og steig út úr bílnum. Þá kom löggan aðvífandi og gerði sér lítið fyrir og handtók frúna, enda lá hún undir grun að hafa keyrt á mig.

Ég vaknaði svo á gjörgæslu í fyrsta, en alls ekki síðasta sinn.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu