19 mars 2007

Memento Mori pt 2

Eins og liggur í augum uppi man ég ekki eftir atburðarásinni í fyrsta hluta. Það sama er uppi á teningnum hér, því ég kannast bara við þessa sögu vegna þess að mér hefur verið sögð hún ansi oft.

Þegar ég var á öðru aldursári fór fjölskylda mín í sumarbústað á Kjalarnesi. Það var þegar Kjalarnes var úti á landi en nú er það auðvitað orðið hverfi í Reykjavíkurborg.

Merkilegt annars að ég man hitt og þetta úr frumbernsku, til dæmis þegar ég lék í sjónvarpsauglýsingu níu mánaða gamall en þetta, sem gerðist síðar, man ég ekki. En ég hef enga ástæðu til annars en að trúa því að þetta sé satt. Enda týpísk saga um mig að mörgu leyti.

Fjölskyldan fór semsagt í sumarbústað á Kjalarnesi, nánar tiltekið í Nesvík held ég, en bústaðurinn var í eigu Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna. Skammt frá bústaðnum var fjaran og eins og þeir vita sem hafa skoðað Kjalarnes eru víða ansi háir klettar fram í sjóinn.

Hefði verið háflæði hefði ég kannski drukknað í þessari sögu og þá væri bálkurinn búinn, en það var ekki háflæði. Sem er eins gott, en að mörgu leyti alls ekki neitt gott heldur. Því ég þvældist sem sagt um þarna í grennd við bústaðinn, hálfsjónlaus auðvitað og óstyrkur á fótunum (hafði lært að ganga um hálfu ári áður en þessi saga gerist og því ekki kominn í sérstaklega góða æfingu) og rambaði fram á klettakamb - samt ekki sjáanlegt neitt lamb - og datt fram af.

Lenti niðri í fjöru og samkvæmt sögunni brotnaði í mér eitt bein. Og það var ástæðan fyrir því að ég lærði að þekkja viðbeinið langt á undan öllum öðrum beinum.

Það er víst í öxlinni. En ég datt semsagt fram af klettabrún og hrapaði einhverja metra niður í fjöruna og lenti á öxlinni. Sem er eflaust betra en að lenda á hausnum eða bakinu því þá er maður dauður.

Og ég er ekki dauður.

1 ummæli:

Immagaddus sagði...

Sorrí.
Þetta gerðist fyrir 9 mánuðum síðan.
Og þú varst að koma blindfullur heim úr vinnunni.

Word verification dagsins er:
ssdygmyf.
Sem þú sagðir við Rósu þegar þú komst heim.