Freudian slip og fiskbúðir

Fyrir allmörgum árum var ég nemandi í háskóla í Pittsburgh. Þegar ég þurfti að ferðast milli skólans og heimilisins - ég á við í jóla- og páskafríum, ég var ekki kommjúter - þá var ýmist millilent í New York eða Baltimore. Einu sinni stoppaði ég í síðarnefndu borginni á leiðinni frá Íslandi og átti nokkra klukkutíma stopp, sem ég nýtti með því að taka rútu niður í bæ og fara á Hooters. Fyrir þá sem ekki vita er Hooters veitingastaðakeðja þar sem seldar eru ostrur og bjór í ökonomipakkningum, og þjónustuliðið eru afvegaleiddar stúlkur sem klæðast stuttum buxum og en styttri bolum. Ostrur hafa gríðarleg áhrif á kynhvötina eins og margir vita og bjór í ökonomipakkningum gerir svipað gagn. Þannig að þegar ég kom aftur út á flugvöll var ég orðinn helvíti glaður, eins og kínverji myndi orða það. Svo fór ég í röðina við check-in og varð starsýnt á fallegu stúlkuna sem átti að þjónusta mig. Sko í hinum hefðbunda skilningi þess orðs. Og viti menn, þegar röðin kom að mér missti ég út úr mér: Yes, I have a picket to Titsburgh.

Það sem verra er, þegar ég var að skrifa þetta varð mér það á að gera smá prentvillu. Í stað þess að skrifa "eins og margir vita," þá kom "eins og argir vita."

Jæja. Í dag fékk ég sko allsvakalega mikla hreyfingu. Svo mikla að það minnti á eyðimerkurgöngu gyðinga sem Immagaddus skrifaði um nýlega. Þannig er að ég er að fara í mat til mömmu á eftir og hún bað mig um að koma við eftir skóla og kaupa ýsuflök. Auðvitað byrjaði ég á því að koma við á Grand og fór svo að velta því fyrir mér hvar ég fengi flökin. Fyrst prófaði ég Fylgifiska á Skólavörðustíg en þar fæst ekkert sem ekki er kryddlegið. Svo ég fór aftur á Grand og fletti upp í símaskránni. Sá staður sem virtist næstur mér var hinn heimsfrægi Sægreifi á Geirsgötu. Svo ég labbaði þangað. En viti menn, eftir að hafa horft á greifann hrylla unga stúlku með því að súpa sýru (þ.e. mysu) beint upp úr fötu fékk ég að vita að ýsuflök væru uppseld hjá honum. Svo ég spurði um næstu fiskbúð og var bent á Hringbraut, við hliðina á Nóatúni. Og labbaði af stað. En það reyndist fýluferð því búðin er ekki til lengur. Miði á dyrinni benti mér á Vegamót við Nesveg. Þá var mér nóg boðið og ég lét mig hafa það að kaupa ýsuræksnið í Nóatúni. Labbaði svo aftur áleiðis niður í bæ og var kominn langleiðina á Grand þegar ég hitti Ægi vin minn sem er kokkur. Sagði honum mínar farir ekki sléttar en hann hló bara og spurði af hverju ég hefði ekki labbað upp á Freyjugötu.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu