Góðverk á stoppistöð

Í dag tók ég strætó á Grand, sem er ekki í frásögur færandi út af fyrir sig. Þurfti að bíða nokkuð lengi eftir vagninum fyrir utan Drauminn á Rauðarárstíg og fylgdist með öskubíl bakka inn í portið við hliðina á þeirri ágætu sjoppu. Svo kom maður gangandi í áttina að mér. Fyrst hélt ég að þetta væri einn af öskuköllunum en svo sá ég að fötin hans voru subbuleg af allt öðrum ástæðum. Ég var einmitt að draga símann minn upp úr vasanum til að gá hvað klukkan væri og áður en ég vissi var náunginn kominn þétt upp að mér. Ég leit í augun á honum og sá heilt apótek að störfum.

"...áttu fimndrukall...?"

"Nei, ég á engan pening, því miður," svaraði ég og lét hugann reika til atviksins í 11-11 um daginn.

Hann hafði séð símann. "...máé hringeittstutthjáér...?"

"Jájá, ekkert mál," sagði ég og þorði ekki annað. Hann tók við símanum, settist á bekk, tók eftir því að hann var með annan skóinn í hendinni, varð eitthvað foj yfir því og grýtti skónum áleiðis eftir Rauðarárstíg. Hringdi svo.

"...mamma...?" byrjaði hann, "...meikaru að komaðeins niríbæ og talavimmig...?"

Nú kom strætó fyrir hornið á Flókagötu. Ég sagði honum að ég þyrfti að taka strætóinn. Hann leit upp og sagði að það væri allt í lagi, hann kæmi bara með mér. Blikkaði mig svo og hélt áfram að ræða við mömmu sína.

Ég fór upp í vagninn, leit afsakandi á vagnstjórann sem var farið að leiðast biðin eftir okkur og útskýrði að náunginn væri með símann minn. Hann var greinilega ekki að ná tilætluðum árangri í samningaviðræðum sínum við þá gömlu og farinn að brýna raustina.

Vagnstjórinn truflaði hann og fór fram á greiðslu. Hann sagðist eiga pening í vasanum og bað vagnstjórann að bíða aðeins, en ekki var tekið sérlega vel í það. Nú voru gæinn og vagnstjórinn farnir að hnakkrífast meðan mamman beið á línunni. Vagninn stóð kyrr á meðan. Allt í einu mundi týndi sonurinn eftir símanum, sagði tvö mjög vel valin orð á ensku í hann og skellti svo á. Síminn fór beint ofan í buxnavasann og hann sneri sér aftur að því að rífast við vagnstjórann meðan hann leitaði í öllum vösum eftir klinki.

Ég hnippti aðeins í hann. Hann leit við.

"Hérna, nennirðu nokkuð að skila mér símanum mínum?"

Hann pírði augun eitt andartak, svo varð hann skyndilega kurteisin uppmáluð.

"Já, auðvitað. Takk fyrir lánið vinur."

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu