Átsj!

Í gær sat ég á Grand Rokk, nei afsakið, á Gröndu Rokki. Um níuleytið ákvað ég að drulla mér heim og þurfti að koma við í kjörbúð á leiðinni. Sem betur fer hefur Strætó Bs. hannað kerfið sitt þannig að það hentar ákaflega vel þegar ég er á Gröndu Rokki og ætla að drulla mér heim en þarf að koma við í kjörbúð á leiðinni.

Ég semsagt tek leið 11 upp á Hlemm, skýst inn í 11-11 og hef sex mínútur til þess, en þá get ég náð leið 13 frá Hlemmi og heim til mín. Ókei, ég veit að það eru ekki nema nokkur hundruð metrar frá Hlemmi og heim til mín en það er ísöld, ókei?

Allavegana, þegar ég kom að kjörbúðinni í gær og vildi komast inn stóð maður í annarlegu ástandi í dyrunum og virtist ekki viss um hvort hann væri að koma eða fara. Ég vissi hins vegar að ég var að koma og þurfti fljótlega að fara, svo ég reyndi að smeygja mér framhjá manninum og komast inn um dyrnar.

Hann tók það óstinnt upp. Hvað sem það svo þýðir. Sneri sér að mér og sagði (að mig minnir, ég er ekki alveg með atburðarásina á hreinu af ástæðum sem skýrast síðar):

"Þú ert algjörlega ruglaður! Hvað ertu að reyna að troðast fram hjá mér? Þú ert bara fífl."

Þetta síðasta sagði hann um leið og hann sneri sér frá mér. Mér var ekki skemmt, svo ég spurði sisona: "Hvað sagðirðu?"

Og hann sneri sér við aftur og bölsótaðist áfram. Man ekki orðrétt hvað hann sagði enda skiptir það litlu. Ég setti á mig kaldhæðnisglott og sagði: "Jájá, mér varð það á að ætla að komast inn um dyrnar á sama tíma og..."

Komst ekki lengra. Skrýtið þegar svona kemur fyrir mann, þá er eins og 0.7 sekúndur af ævi manns hverfi. Því ég man ekki eftir því að sjá hann lyfta hnefanum, man ekki eftir því að fá hnefann í andlitið, heldur man bara að allt í einu sneri ég í hina áttina og það blæddi úr andlitinu á mér niður á gólf. Þessi sekúndubrot áttu sér sem sagt ekki stað á minni ævi og ég fæ þau aldrei aftur.

Ég leit í kringum mig og sá ekki manninn, en tók hins vegar eftir því að lófinn á mér fylltist af blóði. Ég gekk þá að kassadömunum og gerði þeim bilt við. Þær gáfu mér tissjú og ég kom mér út á Hlemm þar sem ég náði leið 13 heim. Allt þetta hafði því tekið sex mínútur.

Heiman ég fór, á slysó og hringdi í fævó á leiðinni. Fævó sagði mér að það yrði óld bill á spítalanum sem gæti tekið skýrslu en það reyndist ekki rétt. Ungur Dani að nafni Ulrich saumaði fjögur spor innan í efri vörina mína (Talk about stiff upper lip!) og ég var sendur heim.

Og nú er ég aftur kominn á Grand Rokk og drekk bjór með röri.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu