23 október 2006

Airwaves búið

Þá er allsvakalegri vinnutörn lokið. Hún var sirka svona:

Miðvikudagur: 11.30-02.00
Fimmtudagur: 11.00-02.00
Föstudagur: 10.00-04.00
Laugardagur: 12.00-05.00

Og reikniði nú hvað ég svaf mikið þessa fjóra daga. Allavega ákváðum við þegar síðasta kvöldið var á enda að nú ættum við skilið að fá okkur duglega í glas. Svo ég kom heim um áttaleytið á sunnudagsmorgni og fór beint í rúmið.

Steini vert vakti mig svo í hádeginu til að ég gæti horft á Júnæted rústa sjúkrabílahristurunumsemstingaömmuráholtilaðnáafþeimellilífeyrinum (Liverpool) en þegar sá leikur var búinn fór ég strax aftur að sofa.

Og vaknaði um áttaleytið í morgun, búinn að sofa meira og minna í sólarhring.

En hvað stóð svo uppúr á Grand Rokk? Fyrir utan hið sífellda væl í Grapevine að lifandi tónlist hafi misst lögheimili sitt í Reykjavík þegar Steini ákvað að hætta að auglýsa í Grapevine, sem er satt best að segja orðið frekar þreytandi.

Á miðvikudaginn voru þrjár góðar hljómsveitir: Hot pants, sem voru fyrstir á dagskrá og spiluðu teknópopp á eldgamlar græjur, Múgsefjun sem voru svona þjóðlagaskotið dæmi með harmonikku, og Retro Stefson, sem er barnahljómsveit og það klikkar auðvitað ekki að vera með tvær fimmtán ára stelpur í hljómsveitinni. Allar hljómsveitir ættu að innihalda amk. tvær fimmtán ára stelpur.

Fimmtudagurinn var frekar slappur og ég hef þegar sagt frá hinum kynæsandi hörpuleikara Katie Buckley og niðurlægingu Búdrýginda.

Föstudagurinn var svona alveg ágætur, tvær verulega góðar sveitir voru The End, svona Stone Roses dansrokk með vænum skammti af testósteróni - og Morðingjarnir sem eru pjúra pönk en hin mestu ljúfmenni.

Laugardagurinn var metal-dagur á Grand Rokk og fyrsta hljómsveitin var alveg frábær, melódískt hart rokk í anda Nirvana þegar þeir voru upp á sitt besta. Enda var ég beðinn að koma þeim í samband við ritstjóra Kerrang! sem er svona metal-tímarit í útlöndum. Svo kom hljómsveitin Sólstafir skemmtilega á óvart með metnaðarfullu (og alltof löngu) prógrammi þar sem þeir notuðust við reykvél, aukaljóskastara og vídeósýningu. Þriðja og síðasta lagið þeirra var um 25 mínútur að lengd og minnti á köflum á grjóthart trance techno.

En mikið djöfull var gott að geta sofið eftir þetta helvíti!

Engin ummæli: