Þriðji kafli



Föstudagurinn var furðulegur. Fyrst vorum við látin mæta í leikhúsið á fund en enn og aftur var enginn túlkur svo það fór fyrir lítið. Hátíðina átti svo að setja þennan dag og hún hófst með mikilli skrúðgöngu um götur borgarinnar. Öll lönd sem áttu fulltrúa á leiklistarhátíðinni voru með atriði í göngunni og þau voru öll mjög skrautleg, mikið götuleikhús, margir þátttakendur, litríkir búningar, trommur og hávær tónlist.

Og Ísland sendi Valdísi. Eina. Gangandi.

Hún tók sig nú samt mjög vel út í göngunni og vakti heilmikla athygli. Setningin sem fór um allt þennan dag var: "Es la senorita Islandesa!"

Eftir gönguna var leikkonan samt úrvinda af þreytu og stressi og þar að auki hafði leikstjórinn stungið hana af í bænum og farið upp á hótel með a) lyklana hennar, b) peningana hennar og c) fötin hennar. Þannig að það var heppni að við Ingvar fundum hana þegar skrúðgöngunni var lokið. Ingvar fór fljótlega sjálfur á hótelið en ég tók að mér að ná stressinu úr leikkonunni og notaði til þess tvo Carajillo og eina rauðvínsflösku. (Carajillo er kaffi með rommi.)

Valdís sagði frá því að henni hefði verið boðið á Carnival af einhverju fólki sem kom til hennar eftir gönguna. Við ákváðum að kíkja í bæinn og mættum "fashionably late" eins og sönnum stjörnum sæmir. Þá komumst við að því að um var að ræða opnunarpartí hátíðarinnar og við áttum að vera heiðursgestir. Leikstjórinn var auðvitað fjarri góðu gamni en mér tókst að friða vonsvikna Senoru Luz Patriciu (sú gamla á myndinni hér að ofan, en hún er listrænn stjórnandi Festival Internacional del Teatro de Carib) með því að skálda sögu um það hversu erfið íslenska prímadonnan væri, og við veslingarnir gætum fátt annað gert en að fylgja hennar hverri ósk, enda væri hún "una granda estrella en Islandia" (stór stjarna á Íslandi) -- það virkaði og innan fimm mínútna eftir að ég lét þessi orð falla var komið TV-crew að taka við okkur viðtal.

Kvöldið endaði svo á besta barnum í Santa Marta, sem heitir La Puerta og þar fæst besta Pina Colada í heimi. Punktur. Staðurinn er frekar lítill, mjög þröngur, sérstaklega á dansgólfinu og ef maður þarf að kæla sig (sem er oft) er hægt að fara út í garð bakatil og fá sér sæti. Þar eru máluð spakmæli á veggina og með því að stúdera þau tókst mér að læra heilmikla spænsku.

Se llama la monogamia es el capacitad por ser infiel a la miesma persona toda la vida.

La vida es emasiado korta y traciga por pasarla sobrio.

La puntualidad es una granda solidad.

Og fleira sniðugt sem ég man ekki lengur.

Daginn eftir var okkur svo skipað að mæta í leikhúsið að morgni dags því við ættum að fara í ferðalag upp í fjöllin. Eða svo skildist okkur. Við biðum auðvitað í tvo klukkutíma eftir brottför (maður var hér enn í íslenskum fíling en af honum læknaðist ég smám saman á næstu dögum) og var þá troðið um borð í gamlan rútuskrjóð sem fór með okkur út fyrir borgina og enduðum við á stað sem okkur var sagt að héti Rio Pietra. Þar var lítill matsölustaður þar sem við gátum fengið okkur bjór en fátt annað merkilegt. Þangað til Helquin kom til okkar og sagðist vilja að við eltum sig yfir götuna og niður að á. Það kom í ljós að við vorum í einhvers konar þjóðgarði þar sem lagt er upp úr því að ferðamenn geti notið óspilltar náttúru. Og það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en sem algerlega ógleymanlegu að busla í ánni inni í skóginum, manni fannst maður vera mörg þúsund kílómetra frá mannabyggðum. Ég fann mér stóran stein úti í ánni, prílaði upp á hann og gerði nokkrar Qi-Gong æfingar. Og fylltist af þvílíkri orku að ég hélt að ég gæti stokkið yfir ána í fullum herklæðum.

Eftir nokkra stund héldum við aftur að veitingahúsinu þar sem nú var farið að skyggja. Þar voru komin hljóðfæri á loft, gítar, harmónikka og fleira og heimamenn spiluðu og sungu fyrir okkur á meðan við gæddum okkur á hænusúpu. Okkur var boðið að gista þarna en gátum ómögulega þegið það þar sem við áttum að mæta á tækniæfingu snemma næsta morgun (eða svo héldum við) svo við náðum annarri rútu í bæinn. Með okkur í för var náungi sem við töldum að hlyti að vera vinur Helquin. Þegar rútan var komin á áfangastað (einhversstaðar í útjaðri Santa Marta) skiptum við okkur í tvo leigubíla: Brynja, Erlingur og Valdís tóku einn rakleitt heim á hótel; en við Ingvar, Helquin og vinur hans tókum annan og stefndum óvænt heim til vinarins. Þar litum við inn í smá heimsókn og kom okkur skemmtilega á óvart að við vorum komin inn á heimili umfangsmikils útflytjanda kólombískra landbúnaðarafurða. Hann heitir Freddy Zapata og gsm-númerið hans er 300-312-6535 ef þið eigið leið um svæðið.

En við stoppuðum ekki lengi þar heldur komum okkur upp á hótel, í sturtu og svo aftur út á La Puerta.

Ummæli

Immagaddus sagði…
Viva Zapata.
Ekki Viva Zapato.
Það getur miskilist.

Word verification er. ufvum.
Þegar Bjössi prófaði að kveikja í
landbúnaðarafurðinni.
Immagaddus sagði…
Hérna er s-ið sem átti að vera í misskilist.

Word verificationið er.
swctmiw.
Sem var hljóðið þegar s-ið stakk af.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu