Næsti kapítuli
PART IV
Eftir þessa miklu ævintýraferð tók vinnan við. Á sunnudagsmorgni mætti ég niður í leikhús að setja upp leikmynd, hljóð og ljós. Allur aðbúnaður var fátæklegur og ævaforn en þarna voru alvöru menn sem kunnu sitt fag. Alfredo ljósameistari, Allan sviðsmaður, Jose ljósaborðmaður, Paolo leikhússtjóri og nokkrir aðrir. Uppsetningin á öllum tækniatriðum ("the get-in" eins og það heitir á leikhúsmáli) gekk drulluvel.
Svo kom að fyrstu æfingu. Við Valdís vorum sammála um að það væri nauðsynlegast að ná að renna í gegnum leikritið einu sinni án þess að stoppa. Brynja var sammála þangað til 8 sekúndur voru liðnar af rennslinu. Þá vildi hún stoppa af því að fyrsta hljóðkjú kom ekki inn á réttu augnabliki. Ég þurfti að æsa mig heilmikið en ég gerði það bara með þeim hætti að hún var fljót að fatta. Við stoppuðum ekki aftur en öll klikk voru tekin fyrir í nótum eftir æfingu. (Sjá mynd.)
Mánudagurinn átti svo að fara í fínstillingar en vinnuhraði innfæddra bauð ekki upp á mikið. Við stefndum þá bara á að vera tilbúin klukkan sjö þegar sýningin átti að hefjast samkvæmt prentaðri dagskrá.
Rétt fyrir sjö var okkur auðvitað sagt að það væri reiknað með að hefja ræðuhöld uppúr hálfátta og þá væri gott að við værum á staðnum því þá væri bara uppúr hálftími í að sýningin gæti byrjað.
Fyrir utan eitt ljótt hljóðklikk í byrjun gekk sýningin svo mjög vel og fékk brjálæðislegar móttökur í lokin. Ég lét mér nægja einn sjúss af rommi með Alfredo og fór svo að taka niður græjurnar því við vorum boðuð í rútupikköpp klukkan tíu næsta morgun. Meiningin var að flytja okkur til þorpsins Fundación lengst inni í landi (Santa Marta er við ströndina og því frekar svöl borg.) þar sem við áttum að sýna næsta kvöld. Fyrsti erlendi leikhópur sem kemur þangað gott fólk.
Það var nú samt kíkt við á La Puerta seinna um kvöldið.
Næsta morgun datt ég inní karabbíska tempóið. Allt gekk svo seint að ég fattaði strax að vera bara ALVEG SAMA. Við komum okkur í leikhúsið klukkan tíu og biðum svo þar í tæpa tvo tíma áður en lagt var af stað. Annar hópur, frá Dóminíkanska lýðveldinu, virtist eiga að vera með okkur í för og einnig hugsanlega hópur frá Venezúela. Loks yfirgaf Venezúeluliðið okkur og við hin fórum á einhverskonar umferðamiðstöð þeirra Kólumba þar sem hugsanlega átti að skipta um rútu. Eftir hálftíma var það úr sögunni og við héldum aftur af stað í sömu rútu. Dómíníska liðið og við. Sá hópur samanstóð af fimm stelpum sem allar gætu verið keppendur í America's Next Top Model, og einum homma sem gæti átt heima í dómnefnd í sama þætti. Öll drop dead gorgeous.
Eftir tveggja tíma akstur stoppum við og okkur er smalað inn í lítið hús sem reynist vera Gljúfrasteinn þeirra Kólumba, með öðrum orðum húsið þar sem Gabríel García Marquez fæddist og þar er nú safn til minningar um hann. Á bakvið er lítið leikhús og þar eru Dóminíkupíkurnar skildar eftir. Við hin höldum áfram til Fundación. Þar er hitinn rúmar 40 gráður og seinkunin og álagið eru farin að segja til sín. Hitinn bætir ekki úr skák. Við Brynja lendum nærri í hár saman varðandi tækniatriðin en að lokum er sæst á að hér geti ekki orðið um heila sýningu að ræða. Aftur hitti ég fyrir frábæra sviðs- og tæknimenn sem gerðu allt sem hægt var en það var ekkert annað í boði en skemmri skírn. Í millitíðinni þurfti ég líka stuttlega að fara í hlutverk minders Valdísar þegar hún fékk smá stresskast.
Sýningin sló auðvitað í gegn og svo tók við tveggja tíma akstur heim. Sem betur fer bættust Dóminíkupíkurnar í hópinn og það varð til fínasta rútupartí.
Man samt skýrast eftir ljósameistaranum í Fundación. Ungur strákur, virtist af indjánaættum, sýndi mér teikningar eftir sig í lítilli rissblokk. Frábær teiknari, hefði átt heima í rándýrum listaskóla ef auðæfum heimsins væri ekki jafn misskipt.
Eftir heimkomuna var aldrei slíku vant ekki farið á La Puerta heldur haldið impromtu garðpartí á hótel-lóðinni. Mexíkaninn Cesar gaf öllum tekíla, Valdís heimtaði rauðvín og ég kom henni á óvart með því að luma á flösku í herberginu mínu. Hún hélt hinsvegar uppteknum hætti og dæmdi rauðvínið ódrekkandi. Sem það auðvitað var, ég fékk það í kaupbæti í súpermarkaði fyrir að versla fyrir 20 þúsund pesóa. Sem er fimmhundruðkall eða eitthvað. Skítt með það, rauðvínið er vont, fáum okkur tekíla.
Ég hef að mestu leyti reynt að forðast tekíla síðan 1989 þegar ég var í Carnige Mellon. Það voru tvö partí sama kvöldið og ég ákvað að mæta. Keypti mér flösku af José Cuervo Gold. Bæði partíin voru frekar slöpp fyrir minn smekk svo ég var sífellt rápandi á milli. Fannst svo um fjögurleytið um nóttina ráfandi um götur Pyttsborgar, ber að ofan og skólaus með Cuervoinn í buxnastrengnum.
"Where are your shoes?"
- "I threw them away!"
"Why?"
- "I hated those shoes!"
Ummæli