Ferðasaga part 1
Ferðin var full af óvæntum uppákomum og sörpræsum og það var strax í Leifsstöð sem sú fyrsta kom upp. Í ferðinni voru: Brynja leikstjóri (68), Erlingur maður hennar (73), Ingvar kamerumaður (45), Valdís leikkona (32) og ég. Í röðinni á Leifsstöð tilkynnir Brynja svona eins og í forbifarten að flugið okkar frá New York til Kólombíu muni millilenda í Panama City.
Flugið til New York var eins og flug til New York eru, langt og frekar leiðinlegt. Brynja hafði falið mér það verkefni að bóka ódýrasta hótel sem ég gæti fundið fyrir okkur í nágrenni við JFK því við komum um kvöld og áttum að vera mætt í tékk-inn klukkan 4 um nótt. Fyrst lét svo kellingin okkur elta sig í lest á þann stað þar sem almennilegu flugvallarhótelin eru með frían skutlubíl, en hótelið okkar reyndist ekki vera eitt þeirra. Svo við máttum bíða í hálftíma eftir leigubíl. Hótelið reyndist svo fremur ógeðslegt og við hin yngri ákváðum að slá þessu upp í kæruleysi og fara í bæinn. Þetta var þriðjudagskvöld og lítið að gera en við fengum okkur einn drykk á Gatsby's í SoHo, löbbuðum og skoðuðum Greenwich Village og Little Italy en nenntum svo ekki meir og fórum á hótelið. Þar tók við tveggja tíma svefn og þegar ég vaknaði kl. 3 og fór fram á gang að vekja hina (Ingvar svaf að vísu í sama rúmi og ég, þökk sé nísk... fjárhagslegu aðhaldi Brynju) þá mætti mér forláta mella að leita að herberginu sem hafði pantað hana.
Á flugvellinum fengum við að vita að hver farþegi fengi EINN miða merktan "priority" til að setja á farangurinn, og þótti Brynju ég frekar leiðinlegur að vilja fá svoleiðis miða á töskuna mína en ekki á leikmyndina, sem við fluttum með okkur í stórri kistu og nokkrum minni unitum. Mér fannst það því frekar skemmtilegt að hún var stoppuð í vopnaleitinni og tekin í rækilega gegnumlýsingu. Við urðum langsíðust um borð því hún varð að fara með handfarangurinn sinn og tékka hann inn þar sem í honum reyndist vera snyrtibudda sem innihélt ýmsa vökva. Vökvar voru (og eru sjálfsagt enn) bannaðir í handfarangri þar sem hægt er að búa til úr þeim sprengjur.
Panama City flugvöllur var lítt frásagnarverður. Svo tók við stutt hopp yfir til Barranquilla í Kólombíu, þangað sem við vorum sótt af ungum manni, Helquin, sem aðeins talaði spænsku. Ingvar er mellufær en við hin vorum vonlaus á þessu stigi, þótt það ætti nú eftir að lagast. Aksturinn frá Barranquilla til Santa Marta tók um tvo tíma og á leiðinni fengum við kókoshnetur með röri til að drekka úr. Namm. Þegar við loks komum á hótelið kom í ljós að herbergin voru rangt bókuð og við Ingvar urðum að deila herbergi fyrstu tvær næturnar. Ég entist ekki lengi á fótum fyrsta daginn, en þau Valdís og Ingvar fóru í bæinn ásamt Helquin. Ég hefði betur farið með þeim og pínt mig til að vaka því næsta morgun var ég vaknaður fyrir klukkan 5.
Ummæli