30 júní 2006

Átta lið eftir á HM

Sjaldan hef ég talist getspakur maður. Vísa á fyrri póst um það hversu mikið ég hef lagt á mig á meðan á HM stendur, og bendi á að með hverjum bjór fær maður miða þar sem maður getur tippað á úrslit leikja. Ólíkt landafræðigetrauninni á bátnum til Amsterdam forðum þá hef ég ekki giskað rétt í eitt einasta skipti.

Pamela Anderson virðist vera miklu klárari í þessu en ég (Sjáið bara!) því hún giskaði á 6 rétta af átta í síðustu umferð, og var reyndar bara með einn leik rangan því hún treysti sér ekki til að dæma um leik Hollands og Portúgal. Frekar en Valentin Ivanov.Fyrir ykkur sem vitið ekkert er hér mynd af Valentin. Hann er dómari. Dæmir fótboltaleiki. Illa. Til dæmis umræddan leik milli Hollands og Portúgals þar sem rauðu spjöldin voru fjórum sinnum fleiri en mörkin, og gulu spjöldin fjórum sinnum fleiri en rauðu spjöldin. Það kallast að bugast undir pressu. Þess má og geta að sami dómari dæmdi mikilvægan leik Íslendinga og Þjóðverja og stóðst ekki álagið þar heldur, því hann dæmdi jöfnunarmark Íslands ógilt. Vafasamt.

En allavegana: Pamela skoraði á mig að tippa á fjórðungsúrslitin (frekar en að biðja Jessicu býst ég við) og maður segir ekki nei við Pamelu.

Þýskaland-Argentína (fös. 15:00)
Úff. Fyrir hálfgildingsenglending eins og mig er þetta mjög erfitt. Ekki það að ég hafi búið á Bretlandseyjum meðan seinni heimsstyrjöldin stóð yfir, og heldur ekki Falklandseyjastríðið. Hins vegar bjó ég þar bæði árin 1996 og 1998. Í fyrra skiptið mættust Englendingar og Þjóðverjar í undanúrslitum EM og leðurhosurnar unnu í vító. Tveimur árum síðar kepptu Englendingar og Argentínumenn á HM og grísboltarnir unnu í vító. Þannig að þettar er soldið eins og að horfa á Arsenal-Chelsea. Eða Arsenal-Liverpool. Eða Chelsea-Liverpool. Sama hver vinnur, þá verð ég glaður því lið sem ég hata tapaði.

Á ég að hætta að blaðra og tippa?

Argentína vinnur í vító.

Ítalía-Úkraína (fös. 19:00)
Sem patti hélt ég alltaf með Ítalíu. HM '82 þegar þeir sigruðu lifir í sælli minningu. Úkraínumenn gáfu okkur Rúslönu og Tsjernóbyl. Þeir eru með Schevchenko sem á að vera góður í fótbolta en miðað við 1) það sem hann hefur sýnt á HM hingað til, og 2) svindlmálið sem fyrra lið hans, AC Milano er flækt í leyfi ég mér að spá því að Chelsea hafi verið að borga þrjátíu milljón pund fyrir kartöflupoka.

Ítalía vinnur 3-1.

England-Portúgal (lau. 15:00)
Það hefur verið alveg kostulegt að fylgjast með umfjöllun bresku pressunnar um frammistöðu Rooney og félaga. Ef þjálfarinn heldur sig við sama leikkerfi og í síðasta leik, þá er hann úrræðalaus. Ef hann gerir breytingu þá er hann að gera út um möguleika "besta liðs sem Englendingar hafa nokkurn tíma átt" (...hvar voruð þið 1966???) með því að rugla þá í ríminu.

Af því að "besta lið sem Englendingar hafa nokkurn tíma átt" er ekki betra en svo að það ræður ekki við breytingu á leikkerfi, hlýtur maður að álykta.

Englendingar hafa verið klókir, spilað eins og Þjóðverjar hafa gert í aldanna rás, þ.e.a.s. gert nóg til að vinna leikinn. Þeir hafa ekki enn sýnt sitt rétta andlit, en Portúgölsku sjóræningjarnir sýndu sitt í síðasta leik með ofangreindum árangri. Þess vegna vantar tvo á miðjuna hjá þeim.

England vinnur 3-0.

Brasilía-Frakkland (lau. 19:00)
Frakkar hafa verið ÖMURLEGT FÓTBOLTALIÐ síðan þeir unnu HM fyrir átta árum. Þjálfarinn þeirra er miklu verri en enskir blaðamenn halda að Sven sé, Vieira og Zidane eru búnir á því og Henry (ekki borið fram eins og söngvarinn í Múzzólíni heldur eins og asni að rýta: OOOOOO-HÍÍÍÍÍ) er ekkert annað en ómerkilegur svindlari og montrass. Samt unnu þeir frábært lið Spánverja í síðustu umferð.

Brassarnir hafa verið gagnrýndir líka fyrir slaka spilamennsku og ef lið Kana-bana-Ghana-manna (þeir unnu jú U.S.A.) hefði getað hitt á markið úr einhverjum af sínum sjöhundruðogfjórtán markskotum væru þeir farnir heim. Segja margir. Ég held hins vegar að þeir hafi verið að spara sig og þeir unnu leikinn þrjú núll á endanum.

Oft er sagt að lykilmenn eigi helst að vera á aldrinum 28-30 á svona stórmótum. Margir í báðum þessum liðum eru komnir langt yfir þann aldur. Og Ronaldo, þrátt fyrir að vera orðinn mesti markaskorari í sögu HM, er kominn langt yfir kjörþyngd Immagaddusar.

Brasilía vinnur 2-1.

Engin ummæli: