Sársauki

Gott fólk.

Ég hef fótbrotnað.

Ég hef dottið niður um hæð og rifið í sundur á mér handarkrikann.

Ég hef handleggsbrotnað. Á báðum. Samtímis.

Ég hef farið í klamydíuprufu með gömlu aðferðinni.

Ég hef hlustað á Nylon.

En ekkert. EKKERT. Kemst í líkingu við síðastliðna nótt.

Ég hafði farið til tannlæknis fyrr um daginn. Í fyrsta sinn í sex ár. Síðasti tannlæknir var asni, segi ekki meir um það. En ég lét skipta um fyllingu í jaxli því hún var brotin og illa farin.

Þegar ég kom heim, enn útúrdeyfður, varð mér á að bíta fast á jaxlinn. Og heyrði háan brest.

Þegar svo deyfingin hvarf, tveimur tímum síðar, byrjaði að stigmagnast einhver svakalegasta tannpína veraldarsögunnar. Og hún stigmagnaðist ekki hægt. Samt lengi. Þannig að hún fór úr því að vera slæm í að eiga heima í Jobsbók.

Ég kallaði til hjálpar og bæði mamma og tengdapabbi léðu Parkódín. Mér líður enn illa í lifrinni því ég tók svo mikið. Og upplifði hálftíma eða svo þar sem ég fann ekkert nema sársauka. Ég gat ekki talað, gat ekki hugsað, gat ekki opnað augun. Sveif bara eins og á töfrateppi sem sveif um á sársaukaskýi. Ég man að ég var farinn að þylja stöðugt í huganum: þetta er bara taug að senda skilaboð, sársaukinn er ekki raunverulegur....

Parkódín skammturinn sem ég tók var langt umfram það sem hjúkkum á læknavaktinni er ráðlagt að segja fólki að sé í lagi. Believe me, ég heyrði hvernig hún tók andköf þegar ég sagði henni hvað ég væri búinn að taka margar. Og ég laug, ég var búinn að taka fleiri.

En svo sofnaði ég.

Konan mín sat mér við hlið og segist hafa verið orðin nokkuð hrædd. Fylgdist í fúlustu alvöru með því hvort ég andaði. Svo fór ég að hrjóta og hún varp öndinni léttar og fór að sofa sæl og glöð.

Eftir að hafa vaknað með reglulegu millibili um nóttina til að bæta á mig verkjalyfjum kom loks að því að ég mátti hringja í tannlækninn. Ég mundi að hún hafði sagst byrja að vinna kl. hálfníu.

Svo að nú líður mér örlítið betur.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Þú átt samúð mína alla, enda einn versti sársauki sem til er. Ég hef verið með tannpínu út á miðju Atlandshafi í nokkura daga fjarlægð frá næsta tannlækni. Það er sko ekkert spaug.

Word werification orð dagsins er vxpwx, sem er nepalska fyrir tannpínu.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu