15 júní 2006

Þolir lifrin mín þrjár vikur í viðbót af HM?

Dagarnir hjá mér eru svona:

Vakna kl. hálfsjö. Já, ég veit, ég er í sumarfríi og ætti að sofa út en það skýrist ef þú lest áfram.

Les um leiki gærdagsins á netinu þangað til frúin vaknar. Helli upp á kaffi. Er furðu lítið timbraður miðað við. Skoða hvort Man Júnæted séu búnir að kaupa einhvern leikmann... bara einhvern, ég meina það.

Spjalla við frúna og við snæðum morgunverð (oftast), svo fer hún í vinnuna um hálftíu.

Sit áfram við tölvuna og vinn í leiklistarhátíð á Akureyri sem ég verð að vinna við í júlí.

Fæ mér hádegismat.

Gái til veðurs og ákveð hvort ég ætli að hjóla, labba eða taka strætó á Grand Rokk.

Mæti á Grand Rokk kl. eitt. Opna efri hæðina, kveiki á skjávarpanum og fæ mér bjór. (Maður þarf að gera allt sjálfur á þessum fjandans stað, en það fyrirgefst því þarna er besti skjávarpinn í bænum. )

Hálfleikur. Pissa. Annan bjór.

Staulast út undir bert loft um kl. þrjú, fer í ríkið og matarbúð ef með þarf, fer heim með pokana, gái til veðurs og ákveð hvort ég ætli að hjóla, labba eða taka strætó á Grand Rokk.

Mæti á Grand Rokk kl. fjögur. Ef ég er heppinn er sætið mitt ennþá laust. Fæ mér bjór.

Hálftími búinn af leiknum. Pissa. Annan bjór.

Hálfleikur. Pissa. Annan bjór.

Korter eftir af leiknum. Pissa. Annan bjór.

Staulast út undir bert loft kl. sex. Dríf mig heim til að elda, nema Chris ætli að grilla. Þá fer ég beint til hans.

Ef ég hef farið heim til að elda þá gái ég til veðurs og ákveð hvort ég ætli að hjóla, labba eða taka strætó á Grand Rokk.

Ef ég hef farið til Chris þá bíð ég með að gá til veðurs þangað til eftir leik.

Leikur hefst kl. sjö. Fæ mér bjór.

Korter búið af leiknum. Pissa. Annan bjór.

Hálftími búinn af leiknum. Pissa. Annan bjór.

Hálfleikur. Sleppi því að pissa, það er röð. Annan bjór.

Hálftími eftir af leiknum. Pissa. Úúúú hvað er gott að pissa ég var alveg í spreng. Annan bjór.

Korter eftir af leiknum. Sleppi því að pissa, leikurinn er orðinn spennandi. Annan bjór.

Leiknum lýkur rétt fyrir kl. 21. Staulast út undir bert loft og legg af stað heim. Man svo að ég hefði átt að pissa áður en ég fór.

Kem heim rétt fyrir hálftíu. Pissa. Ohhhhh hvað það er gott að pissa. Staulast inn í rúm.

Sef til kl. hálfsjö. Vakna furðu lítið þunnur miðað við.

1 ummæli:

lilli sagði...

Vegna álags á lifrina í þér, vil ég benda á það nýjasta í "læknavísindunum". Það dregur verulega úr líkum á skorpulifur, ef menn eru duglegir við kaffiþamb samhliða víndrykkju. Sjá nýlegar greinar á netinu.

Word verification orð dagsins er gylfgoj, sem er líklegt nafn á næstu plötu Gylfa Ægissonar.