Hættur að kenna... í bili

Jamm, í gær var síðasti dagurinn minn í vinnunni. Á miðvikudeginum hafði ég útskrifað tíunda bekkinn minn við hátíðlega athöfn. Samt soldið skrítið að ég var ekki beðinn um að segja nokkur orð við umsjónarbekkinn. Í staðinn töluðu bæði skólastjóri og aðstoðarskólastjóri en sá síðarnefndi kenndi víst þessum bekk (eða hluta hans) fyrir sex árum síðan og hélt því fram að flestir töluðu enn um bekkinn sem "bekkinn hans Snorra" -- nokkuð sem aldrei heyrðist ef einhver afskipti þurfti að hafa af bekknum í vetur. Þá var hann sko bekkurinn minn.

En jæja, hvað um það. Það var í raun ekkert nema skemmtilegt að útskrifa þessa krakka. Flest hef ég þekkt síðan í áttunda bekk og það er frábært að sjá hvað þau hafa þroskast og fullorðnast á þessum árum. Tja, fyrir utan strákana sem hafa aðallega stækkað. Hólmar er auðvitað undantekningin þar, maður býst við að hann verði orðinn inspector scholae eftir nokkur ár. Og það eru fleiri upprennandi snillingar í hópnum: tvíburarnir, Adda, Nína, Selma, Ellen... ég gæti haldið áfram... Amanda, Andrea, Lísa, Þorbjörg... þetta er frábær hópur og ég er feginn að ég hætti ekki í fyrra heldur kláraði dæmið með þessum hópi. Maður finnur til með þeim sem tekur við næsta tíunda bekk en svo virðist sem lausnin sem ég kom með í gríni verði ofaná: það á að fækka í bekknum.

En í gær kvaddi ég svo vinnustaðinn og samstarfsfólkið. Maður er búinn að eignast þarna nokkra alvöru vini, helst Þorstein og Ásu, en auk þess er manni farið að þykja vænt um mjög marga. Ég var hins vegar ekkert að fara út í neina væmni í gær, heldur sagði bara sem svo, að mér þættu langar kveðjustundir leiðinlegar. Þannig að ég væri farinn, bæ. Liðið var smástund að átta sig en svo heyrði ég lófatak um leið og ég gekk út um dyrnar. Í síðasta sinn? Geri nú frekar ráð fyrir því en enginn ræður sínum næturstað. Þegar ég verð kominn með réttindin eftir ár eða svo mun ég auðvitað sækja um öll störf í boði og svo kemur bara í ljós hvað gerist.

Ég á samt víst að koma í Klébergsskóla næsta vor og setja upp leikrit. Ágætis aukapeningur það, meðan maður er sveltandi námsmaður.

Hei, og svo er ég að fara til Akureyrar í júlí. Verð tæknistjóri á leiklistarhátíð fyrir heyrnarlausa. OK ég veit, ég er tæknilega séð ekki heyrnarlaus, en ég hlusta auðvitað ekki á neinn, það hjálpar eflaust.

Þannig að sumarið lofar bara nokkuð góðu...

Feitibjörn er í góðu skapi í dag, enda stutt í England-Paragvæ.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu