11 júní 2006

HM so far

Jæja, þá eru tveir dagar búnir af HM. Þetta er það sem mér hefur fundist só far...

Þýskaland - betri en ég átti von á en ömurlegir í vörninni. Hingað til hefur mér alltaf hrútleiðst að horfa á Þjóðverja spila það sem þeir kalla knattspyrnu. Ef góður fótboltaleikur er eins og Charlie and the Chocolate Factory (litríkur, fullur af óvæntum uppákomum og skemmtilegum karakterum) þá er leikur með þýska landsliðinu eins og Schindler's List (langdreginn, svart-hvítur og veitir manni innsýn í grimmúðlegustu hliðar mannskepnunnar.) Með þessu áframhaldi verða skoruð mörg mörk í leikjum Þjóðverja en meirihluti þeirra munu koma frá andstæðingunum. Heppnir ef þeir komast í 8 liða úrslit.
Costa Rica - hræðilega lélegir og munu varla fá stig. Skoruðu tvö gegn Þýskalandi sem segir meira um Þjóðverja en þessa Miðameríkubúa sem ég man að voru helvíti góðir á HM 1990.
Pólland - aumingja Bogdan, Alicia, Mirek og allir hinir Pólverjarnir í Ferskum Kjötvörum. Tapa 2-0 fyrir Ecuador. Ég sá ekki leikinn, en nú bendir allt til þess að Englendingar fái Ecuador í 16 liða úrslitum en ekki Pólverja eins og maður bjóst við. Ná 3ja sætinu í riðlinum með því að vinna Costa Rica og fara heim með skömm í hattinum.
Ecuador - voru óvænt nokkuð sterkir fyrir 4 árum og virðast sæmilegt lið. Munu eflaust vinna Costa Rica og komast þannig áfram á kostnað Pólverja. Mæta hins vegar ofjörlum sínum í 16 liða úrslitum en þess leiks verður minnst fyrir það þegar hægri bakvörður Ecuador stígur fast ofan á ristina á Wayne Rooney og gerir hann þannig óleikfæran fram að jólum.
England - slök byrjun en þeim dugar að vinna Trinidad á fimmtudaginn til að komast áfram og þeir klikka ekki á því.
Paragvæ - líka frekar slakt lið, greinilegt að það eru bara tvö almennileg lið frá S-Ameríku eins og er. Munu samt veita Svíum harða keppni um 2. sætið í riðlinum og það er spurning hvað þessi lið gera á móti Þjóðverjum.
Svíþjóð - óheppnir að vinna ekki Trinidad en munu mæta brjálaðir gegn Paragvæ á fimmtudag. Allt í einu er það orðinn leikur til að hlakka til.
Trinidad - fengu ekki á sig mark og þar af leiðandi sitt fyrsta HM stig í fyrsta leik. En þar með er partíið búið hjá þeim. Þeir geta farið stoltir heim enda ein minnsta þjóð sem komist hefur á HM.
Argentína - massa lið sem á eftir að fara langt. Voru frábærir gegn Fílunum en eru auðvitað í hrikalega erfiðum riðli.
Fílabeinsströndin - stóðu sig mjög vel gegn Argentínu og óheppnir að ná ekki stigi. Þeirra bíða erfiðir leikir við Serbíu og Holland, en allir leikir í þessum riðli geta skipt sköpum.

Spá fyrir daginn:
Holland vinnur Serbíu í hörkuleik.
Mexíkó og Íran gera jafntefli öllum að óvörum.
Angóla stendur í Portúgal fram að hálfleik en svo hrynur spilaborgin.

Spá fyrir morgundaginn:
Ástralía vinnur Japan auðveldlega.
Bandaríkin eiga ekki séns í Tékkland.
Ítalía og Ghana gera markalaust jafntefli en Essien lendir í fangelsi fyrir líkamsárás.

Engin ummæli: