Ó-ó-óvissuferð

Samræmdu prófin kláruðust í gær. Og samkvæmt hefð er farið með 10. bekk í óvissuferð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þau detti í það. Ekki var það svona í mínu ungdæmi. Mig minnir að minn bekkur hafi farið saman út að borða (á Sögu) og í bíó (á Footloose!) og síðan í partí þar sem kennararnir skemmtu sér með okkur. Man ekki til þess að þeir hafi haft neinar áhyggjur af greinilegri ölvun allra.

En semsagt, í ár ákvað foreldrafélagið að börnin skyldu fá að fara í Paintball. Og sem umsjónarkennari 10. bekkjar fór ég auðvitað með.

Bad idea.

Í fimm leikjum í röð var ég drepinn fyrstur, og er í dag með stórt ljótt rautt far á gagnauganu eftir fyrsta dauðsfallið, því þá var ég skotinn í höfuðið af nokkuð stuttu færi.

En djöfull var samt gaman.

Eftir Paintballið varð að fara aftur upp á Kjalarnes svo börnin gætu þrifið sig. Á leiðinni þangað stoppaði rútan við Mógilsá, þar sem eru gönguleiðir upp á Esju. Allir dregnir út úr rútunni og sagt að við værum að fara í fjallgöngu. Fíflin trúðu því eins og nýju neti.

Meðan börnin fóru í sturtu hljóp ég eins og fætur toguðu upp í skóla og inn á kennarastofu. Æddi þangað inn móður og másandi beint í flasið á skólastjóranum. Sem spurði mig af hverju við værum komin aftur. Og ég svaraði náttúrulega að nokkrir nemendur hefðu orðið uppvísir að áfengisneyslu. Hún missti andlitið niður í ljósritunarvélina. Og svo aftur þegar ég fór að skellihlæja. Tekin! hehehe

Næsta stopp var Adrenalíngarðurinn við Nesjavelli, þar sem börnin fengu góðan skammt af dauðhræðslu, þeim var dinglað úr 8-9 metra hæð í bandi, en í þetta sinn ákvað ég að taka ekki þátt í leiknum. Eftir fjöldamorð á mér í Paintball hugsaði ég mig tvisvar um þegar í ljós kom að þegar maður hangir þarna uppi þá er það restin af hópnum sem heldur í bandið. Þannig að ég horfði bara á og er því enn lifandi í dag.

Nú, til að gera langa sögu stutta endaði ferðin í Félagsgarði í Kjós þar sem var boðið upp á grillmat og almennt partí. Þar sló kennaragreyið eftirminnilega í gegn. Partíið var komið í þennan klassíska íslenska kassagítargír, en gítarhetja bekkjarins (þótt flinkur sé með afbrigðum) kunni ekki Ísbjarnarblús. Þannig að kennarinn var kallaður til. Og þar sem þetta var jú einskonar kveðjustund (þótt mánuður sé eftir af skólanum) þá breytti ég textanum í síðasta erindinu:

Ég ætla aldrei aldrei aldrei aldrei meir að vinna í Klébergsskóla

Ég ætla aldrei aldrei aldrei aldrei meir að vinna í Klébergsskóla


Ég ætla að flytja til Kólumbíu og rækta þar Kóka... Kóla

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu