19 maí 2006

Silvía Night - In memoriam

List sem stuðar engan á best heima á Hallmark-kortum og heillaóskaskeytum. Gjörningurinn sem var Silvía Nótt/Night er einhver sá best heppnaði í veraldarsögunni. Páll Óskar kallar hana hættulegan listamann og það er rétt hjá honum.

Spuni (e. Improvisation) er ekki á allra færi. Langoftast er hann misheppnaður, leiðinlegur og fyrirsjáanlegur. Þegar hann heppnast, veit enginn hvað gerist. Og þegar hann heppnast einstaklega vel, veit jafnvel ekki leikarinn sjálfur hvað er handan við hornið.

Ein aðalreglan í spuna er að það er bannað að segja nei. Það þýðir ekki að orðið "nei" sé bannað, heldur er bannað að afþakka tækifæri til að halda áfram með spunann. Það er bannað að bakka út úr óþægilegri stöðu. Það er skylda að halda áfram. Og það gerði Silvía.

Það er ekki von að restin af Evrópu hafi fattað djókinn. Þeir héldu að það væri enginn munur á Silvíu og Carolu. Enda virkaði bótoxið hennar Carolu alveg svakalega vel. Vindvélarnar voru á 85m/s og kinnarnar titruðu ekki einu sinni.

Silvía hristi upp í Eurovision betur en nokkur hefur gert síðan Palli fór. Og uppskar álíka árangur á stigatöflunni og hann. Palli fór hins vegar út í þeim göfuga tilgangi að bjarga Eurovision. Og Eistar, Lettar, Úkraínumenn, Tyrkir, Grikkjar og Ísraelskir kynskiptingar eru honum ævinlega þakklátir. Sennilega bætast Finnar í hópinn á morgun. Nú eða Rússar, Armenar, Litháar, Pólverjar... sjáiði mynstrið?

Palli bjargaði ekki Eurovision. Hann stækkaði bara Evrópusambandið. Þegar Kyrgyztan vinnur árið 2013 verður það Palla að þakka.

En hver var tilgangurinn með upphristingu Silvíu Næt(ur)?

Spuni á engan tilgang, annan en að halda áfram og sjá hvað maður kemst langt.

Og kemst hún lengra?

Feitibjörn efast (en er samt ekki viss...)

Engin ummæli: