Topp tíu

Mér hefur ekki oft verið sýnd mikil óvirðing um ævina. Og alls ekki oft þannig að það gleymist ekki. En þó gat ég búið til lista yfir þau tíu skipti sem ég hef verið sárlegast lítilsvitrtur.

1. GLERAUGNAGÁMUR
Ég hef aldrei séð vel. Ég fékk mín fyrstu gleraugu níu mánaða gamall. Hef farið í nokkrar skurðaðgerðir sem áttu að laga þetta en er að mestu leyti blindur á vinstra og sé skakkt með því að auki. Hægra er samt ókei. Og auðvitað hefur það verið kveikja að uppnefnum. En þau særðu nú aldrei sérstaklega mikið því ég var aldrei kallaður Gleraugnaglámur. Jafnvel þótt hálf þjóðin hafi lesið Grettis sögu og hinn helmingurinn horft á Glám og Skrám. Ellið datt alltaf út, árum saman, og ég var aldrei kallaður annað en gleraugna-gámur. Sem kom mér alltaf til að hlæja að ofsækjendum mínum.

2. FORSTJÓRI BAUGS
Fyrsta daginn minn í nýjum skóla á fermingarárinu gerði ég mig sekan um að sitja á gólfinu fyrir framan kennslustofu í frímínútum meðan ég beið eftir að kennarinn mætti. Opnaði bók og var eitthvað svona að glugga í hana. Svo hringdi bjallan og ég var ekki alveg búinn með málsgreinina svo ég hélt áfram að lesa í svona hálfa mínútu eða svo. Kennarinn kom, dyrnar opnuðust og nemendur ætluðu inn. Ég var fyrir Jóni Ásgeiri og hann beið ekki boðanna heldur hótaði strax að berja mig. Snemma beygist krókurinn.

3. PERVERT Í HÖLLINNI
Sumarið eftir fór ég á tónleika í Laugardalshöll. Echo and the Bunnymen og nokkrar íslenskar hljómsveitir. Þurfti að pissa og fór niður í kjallara þar sem salernin voru. Rataði ekki betur um Höllina en svo að ég fór óvart niður kvennaklósettsmegin og þurfti að snúa við. Þá vatt sér að mér lágvaxinn eldri maður í grágrænum frakka, tók í hendina á mér og strauk á mér handlegginn með orðunum: "Þetta er allt í lagi, þetta er allt í lagi." Ég kippti að mér hendinni og sagði honum að hætta þessu. "Þetta er allt í lagi, þetta er allt í lagi," sagði hann meðan hann hörfaði.

4. O + J = OJ!
Þegar ég var ellefu ára lét ég pabba kaupa fyrir mig silfurhálsmen þegar við vorum á Bahama-eyjum. Og láta grafa í hjartalaga menið stafinn "J" því ég var skotinn í Jóhönnu. Þegar ég sýndi henni það bætti hún sérhljóðanum "O" við svo úr varð upphrópun sem olli mér miklum vonbrigðum: OJ!

5. SPAGHETTI
Sjö ára gamall þóttist ég mikill töffari. Kvöld eitt þegar pabbi og mamma voru að gera sig klár að fara út á lífið stóð ég uppi á bílskúrsþaki ásamt nokkrum vinum mínum. Niðri í garði stóðu nokkrar stelpur sem við vorum að spjalla við. Ein var eitthvað heit fyrir bróður mínum og hét held ég Kolla. Ég var eitthvað að segja við hana og steig nokkur skref aftur á bak til að leggja áherslu á hvað ég væri svalur. Því miður entist bílskúrsþakið ekki svo ég datt aftur fyrir mig niður í kartöflugarð. Braut báða handleggi. Í tvö ár á eftir (og að sumu leyti enn) sást greinilega að beinin í framhandleggjunum höfðu ekki fengið að vaxa almennilega. Og þannig kom það til að ég var einu sinni spurður af einhverjum strák hvort ég væri stundum kallaður Spaghetti, því handleggirnir á mér væru svo mjóir.

6. EKKI LAMINN AF FÚSA
Vorið sem samræmdu prófin stóðu fyrir dyrum var ég langt frá því að vera vinsæll í skólanum, enda álitinn proffi (sjá hér að neðan) og að auki hálfgerð grenjuskjóða. Í einum frímínútum var allt í einu útlit fyrir að Fúsi, sem var aðalkraftajötuninn í árganginum en ekkert gáfnaljós, ætlaði að berja mig í klessu fyrir litlar sakir. Hann spurði mig hvort ég héldi ekki að hann ætlaði að lemja mig, og ég sagði nei. Hann varð steinhissa og spurði af hverju. Og svar mitt var fáránlegt. Ég sagði að þá myndi ég ekki hjálpa honum að læra. Ég hafði aldrei gert það, og hann aldrei beðið mig. Ekki einu sinni að ég hefði gert það þótt hann bæði mig. Það var einfaldlega ekki til umræðu. En þetta svar kom honum svo gersamlega í opna skjöldu að hann hló bara að mér og fór. En mér fannst ég hafa gert sjálfan mig að fífli með því að mála sjálfan mig sem góðhjartaða nördið í heimi grimmra töffara.

7. RAUÐU SOKKARNIR
Á Valhúsaskólaárum mínum var í tísku að ganga í hvítum íþróttasokkum, sem oftast voru með blárri og rauðri rönd. Einnig voru til afbrigði af sömu sokkum sem voru bláir með hvítri og rauðri rönd. Dag einn eignaðist ég rauða sokka með hvítri og blárri rönd. Og fór í þeim í skólann. Ég var hæddur og spottaður, og mér var hótað allskonar meiðingum. Og eftir það hafði ég enga trú á því í mörg ár að ég kynni að klæða mig.

8. PROFFI
Þetta viðurnefni fylgdi mér allt frá sex ára bekk. Ég hafði fengið undanþáguleyfi til að hefja nám fimm ára gamall af því að ég gat fattað í sálfræðimati að þríhyrndi kubburinn ætti að fara í þríhyrnda gatið, ferhyrndi kubburinn í ferhyrnda gatið og stjörnulaga kubburinn í stjörnulaga gatið. Ég kunni að lesa (meiraðsegja á dönsku) og gekk með þykk gleraugu. Mamma var kennari í eldri bekk og ég fékk stundum að fara þangað þegar verkefni dagsins í mínum bekk voru ekki nógu krefjandi. Í ein tólf til fimmtán ár var ég iðulega kallaður þetta af fólki sem vissi alveg að ég heiti Bjössi. Og oftast kom "djöfulsins" á undan proffanafninu.

9. FÍFLIÐ
Það er ekki auðvelt að eiga stóran bróður sem er jafn mikill töffari og Gulli bróðir minn. 87% af öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur í lífinu hefur verið til að líkjast honum, því hann er svo kúl. Því miður hefur mér sjaldan tekist að matcha hann. Ég gerðist alki eins og hann, klessti bíla eins og hann, dissaði stelpur eins og hann, lenti í slagsmálum eins og hann, reyndi að segja brandara eins og hann og þannig mætti lengi telja. En hann hefur löngum notað þetta nafn á mig, sérstaklega þegar hann talar um mig í þriðju persónu við einhvern á meðan ég er viðstaddur. Og þá kallar hann mig Fíflið. Eins og það sé bara til eitt virkilega alvöru fífl í heiminum.

10. NÖRD
Haldiði svo ekki að mamma hafi orðið svo fúl út í mig af því að hún fékk ekki að ráða matseðlinum í brúðkaupsveislu okkar Rósu að hún fann sig knúna til að kalla mig nörd í ræðu sinni í veislunni. Ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar. Og þegar ég kvartaði nokkru seinna og sagði henni að mér hefði ekki fundist gott að vera uppnefndur af mömmu minni, þá sagði hún bara: "Já en þú ERT nörd!"

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Illa er nú komið fyrir þér, væni minn
Nafnlaus sagði…
ÆÆ Bjössi minn -
Nafnlaus sagði…
Einmitt það sem ég hugsaði (sem anonymous sagði hér að ofan). og hvað lífið hlýtur að hafa verið tilbreytingarlítið hjá þér síðustu árin. Ég man eftir næstum öllum þessum sögum (fyrir utan auðvitað brúðkaupið og Jón Ásgeir var ekki til þegar ég þekkti þig, svo ég man ekki eftir þeirri sögu heldur) og ég hef ekki hitt þig í hálfan annan áratug! Ferlega fyndið að ramba á bloggið þitt, sjáumst kannski eftir önnur fimmtán ár.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu