Og ég þykist geta sagt sögur...

Úr "Lánsamur - sjálfsævisaga George Best":

Ég sukkaði af mikilli áfergju og eftir enn eitt heiftarlegt rifrildi við Angie hélt ég af stað til Blushes á King's Road. Það hefði verið lítið mál fyrir mig að rölta þangað en einhverra hluta vegna ákvað ég að fara á bílnum en lofaði sjálfum mér að keyra ekki heim.

Eftir að ég hafði sturtað vel í mig á Blushes fór ég yfir götuna á diskótek og fékk mér nokkra í viðbót. Klukkan hefur svo verið um hálfeitt þegar ég ákvað að fara á Tramp. Ég gekk út á King's Road til að ná mér í leigubíl en það hellirigndi og allir Lundúnabúar vita að vonlaust er að fá leigubíl þegar rignir.

Ég stóð þarna á götunni í um tíu mínútur áður en ég hugsaði með sjálfum mér, andskotinn hafi það - það er bara fimm mínútna akstur til Tramp. Ég var ekki í ástandi til að aka svo mikið sem 5 metra og var hirtur af lögreglunni beint fyrir utan Buckingham Palace. Þeir hefðu ekki einu sinni þurft að láta mig blása í blöðru því að það var engin von til þess að ég stæðist prófið. Samt fullnægðu þeir formsatriðunum og fluttu mig svo á Canon Row lögreglustöðina þar sem ég var ákærður og mér gert að mæta fyrir undirrétti á Bow Street daginn eftir.

Mér var ekki sleppt úr varðhaldi fyrr en klukkan sex um morguninn, laugardaginn 3. nóvember, en að þessu sinni tók ég leigubíl heim og fór beint í rúmið. Ég vaknaði ekki fyrren eftir hádegi og þar sem mér hafði verið neitað um lokadrykkinn á Tramp kvöldið áður ákvað ég að upplagt væri nú að fá sér hressingu á Blushes.

Þegar ég rölti inn var stemmningin svona eins og klippt út úr Clint Eastwood bíómynd, þar sem allir hættu að tala og beindu sjónum sínum að mér.

Að sjálfsögðu þekkti ég fullt af fólki þarna og einn þeirra spurði: "Hvað ertu að gera hérna, George?"

"Hvað heldur þú?" sagði ég. "Fá mér í glas eins og allir aðrir."

"Það er búið að gefa út handtökuskipun á þig," sagði hann. "Löggan er að leita að þér."

"Hvað meinarðu," sagði ég. "Ertu að skopast að mér?"

"Nei," sagði náunginn. "Þetta var í fréttunum. Þú áttir að vera í réttinum klukkan níu í morgun."

Ég trúði þessu ekki. Mér hafði fyrst verið sleppt út af lögreglustöðinni klukkan sex. Hvernig gátu þeir búist við því að ég gæti mætt í réttinum klukkan níu? Það er nú ekki hægt að segja að ég hafi verið allsgáður þegar ég yfirgaf steininn og gerði ekki ráð fyrir að réttað yrði fyrr en á mánudeginum. Ég vissi ekki til þess að réttur væri settur um helgar.

Á meðan ég hugsaði ráð mitt fannst mér ég allt eins geta fengið mér í glas.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu