Tómas miðframherji - betra dæmi

Það rann upp fyrir mér strax og ég tók upp bókina að dæmið áðan var ekki sérlega góð vísbending um hið fornfálega tungutak sem einkennir hina íslensku þýðingu á bókinni "Mittelstürmer Thomas Bruckner" þannig að það er ekki nauðsynlegt að lesa eldri færsluna hér fyrir neðan nema þá kannski fyrir þá sem hafa lítið að gera. Eru veikir heima eða eitthvað.

Þess má geta að dæmið hérna kemur beint á eftir dæminu í hinum póstinum.

Á mánudaginn er ekki um að ræða nema eitt umtalsefni í skólanum: Heimsókn unglingaliðsins í sjónvarpið. Tómas og Manfred, sem þennan dag eru báðir útnefndir hetjur bekkjarins, verða að segja söguna aftur og aftur. Margir af félögum þeirra hafa áhuga á starfi sjónvarpsfréttamanna, aðra langar til að vita, hvernig umhorfs sé í slíkum upptökusal, enn aðrir koma með spurningar varðandi tækniútbúnaðinn.

"Skráðu þeir þig ekki óðar sem nýja fréttamannsstjörnu," segir Fritz Lemke við hinn langa Manfred. "Þú værir nú tilvalinn til slíks, svo liðugt sem þér er um málbeinið."

"Hann hafnaði hinu glæsilega boði," svarar Tómas. "Manfred getur ekki hugsað sér að skilja við ykkur. Þar að auki ætlar hann fyrst að taka snöggvast stúdentspróf, áður en hann fer út í þetta mikla sjónvarpsstarf."

"Stúdentspróf? Þú átt við, að hann ætli áfram í fimmta og sjötta, ha?" Orð Günthers eru hæðnisleg.

"Hugsa þú um þín eigin mál," segir Manfred kuldalega. "Þú ert bara vondur, af því að þú varst ekki með á laugardaginn í sjónvarpinu."

"Svei! Ég veit um einn, sem er miklu argari út af því," anzar Günther. "Og á ég að segja ykkur, hver það er? Eimreiðin."

"Hann er þó veikur," segir Manfred kæruleysislega.

"Ekki rétt! Ég hitti hann í morgun, þegar ég var á leið í skólann. Hann var að fara í vinnu. Sem sagt engin veikindi."

"Og hvað sagði hann?" spyr Tómas.

"Það óð á honum eins og spóa, og hann hafði allt á hornum sér! "Maður spanar viku eftir viku á knattspyrnuvellinum, og ef maður verður lasinn í nokkra daga, er maður um leið gleymdur," sagði hann. "Strákarnir fara til Wiesbaden, í íþróttaþáttinn, og ég sit heima og flétta fingur. En varamaður minn verður stjarnan í viðtalinu!"

"Út af hverju er Eimreiðin svona á móti þér?" segir Manfred við Tómas.

"Það hef ég ekki hugmynd um!" svarar Tómas og ypptir öxlum. "Líklega er hann hræddur um, að ég taki við af honum á vellinum..."

"Hann gengst nú tæplega inn á það," segir Günther í sínum drjúga tón. "Eða að minnsta kosti skildist mér það á honum, þegar hann kallaði á eftir mér: "Skilaðu til stráksins, að hann skuli ekki vera of viss í sinni sök! Ég ætla að berjast fyrir stöðu minni!" Jæja, þá vitið þið það allt!"

"Raunverulega allt?" Manfred leggur áherzlu á hvert atkvæði og talar undarlega hægt.

"Allt, já, vissulega! Hvað hefði hann svosem átt að segja fleira?"

"Ekki hann, heldur þú!" segir Manfred ögrandi.

En þá er hléið á enda, og þeim feita Günther gefst ekki lengur tóm til að brjóta heilann um hina dýpri merkingu þessarar síðustu spurningar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu