Sorteper fær sér hammara

"Kallinn er byrjaður að éta!" hugsaði Sorteper. Fyrir nokkrum mínútum hafði íbúðin fyllst af ilminum af steiktu beikoni og nautahakki. Sú vingjarnlega var að búa til matinn, og hafði rétt áðan farið með disk inn til mannsins síns.

Per byrjaði á því að stilla sér upp hægra megin við kallinn, því hann sér miklu betur með auganu þeim megin. En um leið og hann hafði náð augnsambandi færði hann sig að sófanum vinstra megin, teygði svo álkuna í átt að matnum og það ískraði í honum þegar hann fann lyktina.

"Spikfeitt beikon!" sagði hann við sjálfan sig um leið og hann hrifsaði lítinn bita úr hendi kallsins. Ekki lengi að sporðrenna því. Stökk upp í sófann við hlið kallsins og rumdi frekjulega. Uppskar stóreflis flís af hamborgara sem lögð var á sófaborðið.

Sorteper rak trýnið fram og þefaði. Setti því næst báðar loppurnar á borðbrúnina og gerði sig líklegan til að grípa kjötið með kjaftinum.

Hætti síðan við, og sat nokkra stund grafkyrr og starði á matarbitann. Kallinn var farinn að horfa á bitann líka, hissa að kötturinn hafi ekki rifið hann í sig fyrir löngu, eins og hann er vanur.

Sá svarti færði sig um set á sófanum, nældi síðan eldsnöggt kló á vinstri loppu í kjötið og dró það fram af borðbrúninni, svo það datt niður á gólf. Elti loks bitann og hámaði í sig.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Áhugaverð saga ......

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu