Magalendingar í febrúar

Það er stundum talað um það að mánaðamótin janúar-febrúar séu versti tími ársins.

Þá sé versta veðrið, enn hellingur eftir af vetri, jólin búin og stærsti VISAreikningur ársins að detta í póstkassann. Auk þess sem annað hvert ár um þetta leyti er maður að vakna upp við það að Íslendingar séu ekki að verða Evrópumeistarar í handbolta.

Nú í ár varð þetta síðasttalda enn verra því ef við vinnum ekki Svíana í júní getum við gleymt öllum stórmótum í handbolta næstu árin. Og þetta vissi þjálfarinn og hafði vit á að vera búinn að segja upp fyrir svo löngu að uppsagnarfresturinn er liðinn og hann gengur blístrandi um stræti með skattkortið í vasanum.

Sjálfur nota ég ekki VISA. Og ekki þannig að ég sé eitthvað voða prudent peningalega, onei. Ég nota bara MasterCard. Því flest sem ég þarf að kaupa mér er hvortsemer priceless.

Og þeir eru helvíti góðir. Ég hringi í þá einn daginn og bið um að fá að skipta jólareikningnum í þrennt. Ansi hart að vera að borga síðustu afborgun af jólunum þann 1. apríl, en svona er bara lífið. En næsta dag hringir MasterCard í mig og segist þurfa að loka kortinu mínu af því að það sé búið að klóna það.

Glöggir muna kannski að þetta hefur komið fyrir mig áður. En nú spyr maður sig hvort þetta sé þeirra leið til að segja manni að maður sé að eyða um efni fram á kortinu.

Og nú er að byrja sá tími í vinnunni sem ég hef lúmskt gaman af: þegar 10. bekkingar byrja að fatta að skólaskylda þeirra er senn á enda, og þeir byrja smám saman að haga sér eins og þeir hafi engu að tapa.

Það er einhver rómantík í þessu tímabili í lífi unglinga, áður en alvaran hellist yfir með fóstureyðingum, afborgunum, skilnuðum og klipptum kortum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu