28 febrúar 2006

Bitur lúser?

Það er erfitt að koma þessari sögu frá sér án þess að virka fullur af kulda og heift út í fyrrverandi vini sína, en ég ætla nú samt að reyna.

Áðan þegar ég beið eftir strætó á Hlemmi sá ég tvær konur standa fyrir utan sviðsdyrnar á Möguleikhúsinu og spjalla saman. Þetta voru þær Ágústa Skúladóttir og Vala Þórsdóttir. Til að móðga hvoruga skal tekið fram að ég nefni þær í stafrófsröð en ekki af því að ég telji aðra framar hinni eða neitt svoleiðis.

Ég gerði nú ekki meira en að vinka og brosa þótt ég sé nú aftur farinn að mega tala við þessar tvær listakonur. Það kastaðist nefnilega í kekki milli okkar á fylleríi (reyndar bara mínu fylleríi svo fyllst sanngirni sé gætt) fyrir nokkrum árum og lengi vel frusu þær og störðu á veggi ef ég var í sama húsi, til þess að þurfa ekki að viðurkenna að ég sé til.

Þær stóðu fyrir stand-up kvöldi í Kaffileikhúsinu fyrir nokkrum árum. Við höfðum unnið saman í London í gamla daga (og hér verð ég að passa mig að nefna nafn Önnu Hildar Hildibrandsdóttur, því annars kemur Arnar Grant og lemur mig) og þar kom meðal annars í ljós að ég er ólæknandi hecklari þegar ég fer á stand-up.

Hecklari er sá sem er með frammíköll og stæla við standöpparann, til að reyna að setja hann út af laginu.

Ágústa hafði kynnst þessu eðli mínu en einhverra hluta vegna vildi hún samt að ég kæmi á þessa kvöldsamkomu þeirra. Hún bað mig að koma ekki á fyrsta kvöldinu þar sem hún væri MC og ég mætti ekki heckla sig útaf sviðinu. Ég sagði henni að ég gæti ekki annað en hecklað útaf sviðinu alla þá sem láta heckla sig útaf sviðinu og það varð úr að ég kæmi á kvöld tvö.

Þegar ég kom lét Vala það verða sitt fyrsta verk að gefa mér bjór. Gott ef ég mátti ekki drekka eins og ég vildi. Alla vega gerði ég það.

Bardaginn milli mín og Calums, en það hét gestur þeirra systra, var skemmtilegur framan af, en er á leið fór bandarískur áhorfandi að blanda sér í leikinn. Ég var farinn að pirra hann og hann lét þá skoðun sína í ljós. Ég reif kjaft á móti þangað til fólkið á borðinu mínu sagði mér að þegja.

Í hléinu kom svo Vala til mín og bað mig að hætta að heckla. Ég tók því sem bón um að fara. Vildi enda ekki una því að þurfa að sitja þegjandi. Ég heckla. Deal with it. Svo ég fór með þeim orðum að ef þær vildu ekki að ég kæmi (vitandi að ég myndi heckla) þá ættu þær ekki að bjóða mér.

___


Árið 2000 setti leikfélagið The Icelandic Take Away Theatre upp tvær sýningar í Reykjavíkmenningarborgevrópu. Dóttur Skáldsins eftir Svein Einarsson í minni leikstjórn og Háaloft eftir Völu í leikstjórn Ágústu. Heppnaðist allt mjög vel fyrir utan eitt atvik.

Við Ágústa fórum í blaðaviðtal hjá Hávari á mogganum og þar sagði ég frá því að ég hefði átt hugmyndina að því að senda leikrit Sveins Einarssonar í samkeppni menningarborgar. Blaðamaður misskildi því við sögðum einnig frá því að verkið hefði verið sett upp af sama leikhópi í London tveim árum áður. Reyndar var það sett upp tvisvar í London, einu sinni í leikstjórn Sveins og einu sinni setti ég það upp.

Hann lét prenta að ég hefði átt hugmynd að samningu verksins.

Ég fékk símtal frá Önnu nokkurri sem taldi þetta kaldar kveðjur og að sér vegið. Hún hlustaði ekki á mótbárur mínar og vildi meina að ég stundaði þarna sögufölsun. Ég man að símtalið endaði með orðum hennar: Fuck you Björn Gunnlaugsson.

En þetta var ekki mér að kenna.

___


Nú, mörgum árum seinna, eru bæði Vala og Ágústa að gera það gott. Komnar í fasta vinnu í Þjóðleikhúsinu og virðast vera að setja upp hverja snilldarsýninguna á fætur annarri. Ég hef bara séð Klaufa og kóngsdætur og hún var flott.

Og á síðustu dögum hafa birst viðtöl við báðar í Morgunblaðinu. Held alveg örugglega að það sé mogginn í báðum tilvikum.

Hvorug þorir að taka heiðurinn af því að þær séu að gera það gott. Báðar passa upp á það að nefna nafn Önnu Hildar Hildibrandsdóttur og að hún hafi átt frumkvæði að stofnun Icelandic Take Away. Sem hún vissulega átti en við vorum ekkert atvinnulaus sem tókum þátt í að skapa þá list sem sá leikhópur skapaði.

Báðar nefna að leikritið Daughter of the Poet hafi verið sett upp af Sveini Einarssyni í London. Hvorug nefnir að það hafi síðar verið sett upp þar af mér. Báðar nefna að verkið hafi svo verið þýtt og sett upp í Reykjavík. Hvorug nefnir leikstjórann.

Hvað er sögufölsun?

Ég er feitibjörn.

Engin ummæli: