Skurðaðgerðin heppnaðist með eindæmum vel


Eins og ég sagði frá þá var ég í skurðaðgerð á mánudaginn. Hún var úrslitatilraun til að losa mig við vandamál sem ég hef glímt við um árabil, en það er krónísk stífla í nefi með tilheyrandi pirringi. Ég var til skamms tíma búinn að gleyma því að það væri hægt að anda með nefinu, og átti við verulegan munnþurrk að etja eftir nætursvefn.

Loksins gafst ég upp fyrir tæpu ári síðan og fór til háls-nef-og-eyrnalæknis. Sá er allavega pottþétt flínkur í höndunum því hann er pabbi þeirra Ólafs handboltahetju og Jóns Arnórs körfuboltakappa. Svo á hann þriðja soninn sem spilar fótbolta með Fram svo við skulum ekkert vera að tala um það. En: þessi læknir gaf mér steratöflur sem virkuðu eins og draumur, og ég fór að finna lykt aftur. Að maður tali nú ekki um að geta lokað á mér trantinum öðru hverju, sérstaklega þegar konan er heima. En það var skammgóður vermir, og þó ég hafi fengið meiri stera í formi nefúða þá var orðið ljóst að það væri réttast að reyna að krukka eitthvað í nefinu á mér.

Sú aðgerð átti að fara fram sl. vor en frestaðist, og var loksins framkvæmd nú á mánudaginn, og var því lýst þannig fyrir mér að "separ yrðu fjarlægðir."

Það var gert með því að reka eitthvert verkfæri inn í nasaholurnar, sem eins og sjá má á myndinni eru býsna stórar, þó mínar væru orðnar fullar af einhverjum viðbjóði. Svo mátti ég liggja á bakinu í tvo sólarhringa meðan sárin greru, og var nú áðan hjá lækninum að láta hann fjarlægja grisju, á stærð við fingur, alla út í storknuðu blóði, út um vinstri nösina mína.

Það blæddi alveg helling, en eftir að ég hafði fengið bómull í nösina og skolað mesta blóðið framan úr mér (og af höndunum, og fötunum mínum, og gólfinu, og borðinu... you get the picture) mátti ég fara heim.

Og nú er ég búinn að skipta þrisvar um bómull og það er hætt að blæða.

Ég er að hugsa um að fara út og kaupa eitthvað skemmtilegt handa sjálfum mér í verðlaun.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu