Góðverk ársins

Steig uppí strætó fyrir utan Drauminn á Rauðarárstíg á leið niðrí bæ. Sat rólegur meðan vagninum var ekið inn á Hlemmtorg og fullt af fólki kom um borð. Þegar síðasti nýi farþeginn er um það bil að setjast rýkur vagnstjórinn upp:

"Hey! Hey!!!! Þú þarna!!!!!! Þú þarna! sem varst! að! stelast inn! að aftan!"

Löng þögn, en vagnstjórinn stígur vígalega út úr bási sínum.

Heyrist svo aftast í vagninum, skjálfandi röddu:

"...ég...?..."

"Já!!! Þú!!! Komdu hingað!"

Þá stígur fram maður, ekki sá veikróma, og segir við bílstjórann eitthvað í átt við að þetta sé allt í lagi, hann skuli borga, og hann leiðir vagnstjórann geðvonda aftur að sínum rétta stað sem er bak við stýrið og dregur upp veski og er allan tímann að tala á mjög svo rólegum nótum við hinn æsta bílstjóra.

Eftir nokkra stund fer að heyrast í þeim einkennisklædda aftur:

"Hvað á ég að bíða lengi!? Hvað ætlarðu að halda vagninum hér lengi!? Víst!?!?!?! Það kostar tvö hundruð og fimmtíu kall!!?!!!?!!!!?!!!!!!"

og svo framvegis

Eftir nokkrar mínútur gefst ég upp, tek upp veskið og dreg út fimmhundruðkall. Geng fram í vagninn og spyr:

Ef ég borga fyrir þá, getum við þá farið?

"Ja, ég ætla sko fyrst að henda þessum köllum út!"

Nei, ekki gera það. Það eru jólin, það er vont veður, þeir eiga bágt, þeir þurfa á farinu að halda. Ég skal borga fimmhundruðkall og málið er dautt.

Sest svo aftur, og örlagafyllibyttan kemur til mín, þakkar kurteislega (og skælbrosandi) með handabandi og fer afturí að hlynna að vini sínum, sem rétt er að taka fram að átti verulega bágt.

Þegar vagninn kom niður á torg passaði ég uppá að fara út að framan, leit á vagnstjórann og þakkaði brosandi fyrir mig áður en ég steig frá borði. Sá var niðurlútur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu