Þessi er sönn saga frá Immagaddusi

Kom heim eftir vinnu seint í dag. Kveikti á sjónvarpinu, og við blasti svartur skjár. Helvítis Digital Ísland, þeir hafa gleymt því rétt eina ferðina að mánaðargjaldið mitt er greitt með VISA-rað snemma í mánuðinum og halda að ég sé í skuld. Tek upp símann og hringi í þjónustuver Stöðvar 2.

“Þú ert númer... sextíu... í... röðinni.”

Helvítis. Bíð rólegur, eftir smástund og eina sígó legg ég tólið frá mér smástund og hendist fram í eldhús að ná í bjór. Kem aftur og hlusta:

“Þú ert númer... níu... tíu... og.... fimm... í.... röðinni.”

Þetta er ekkert að gera sig. Bíð samt heillengi en áður en ég er kominn niður í áttatíu er fokið allsvakalega í mig. Skelli á með eins miklum látum og hægt er að gera á Nokia 3310.

Hugsa málið andartak. Hringi í 1414. (Þjónustuver Og Vodafone.)

“Þjónustuver Og Vodafone, get ég aðstoðað?”

Næ sambandi á innan við 0.7 sekúndum.

Já, eiginlega. Get ég skipt um símavin?

“Já, ekkert mál, kennitala og símanúmer?”

Ég gef það upp, og bíð andarblik.

“...og hvaða númer viltu fá sem nýja vinanúmerið?”

Ég var að spá í þjónustuver Stöðvar Tvö, ég er búinn að bíða í biðröð þar í hálftíma og það er að kosta mig allt of mikla peninga.

Löng þögn.

“...öh... þetta er eiginlega sama þjónustuverið, hvað get ég gert fyrir þig?”

Tveimur mínútum seinna var Stöð 2 komin í gagnið hjá mér.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Feitibjörn tekur pásu

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022