Einu sinni var ég í Glasgow

Reyndar bara á flugvellinum en það kom ekki að sök. Í fyrsta lagi er Glasgow sérlega óspennandi borg, nema fyrir heróínista. Og í öðru lagi varð þetta samt mjög minnisstæð dvöl á flugvellinum, meðan ég beið ásamt fjölskyldu minni eftir flugi heim til Íslands.

Því á flugvellinum var stór og undarlegur kassi. Hann var rúmlega mannhæðarhár og virtist innihalda sjónvarpstæki. Svo var prik með litlum hnúð á endanum fyrir neðan sjónvarpsskerminn, ásamt rauf til að setja peninga í.

Þetta hafði ég aldrei séð áður (en þetta hefur verið sirka 1981) og ég bara varð að prófa. Setti 10p pening í raufina og það kviknaði á sjónvarpinu. En það var enginn þáttur í því, hvað þá bíómynd. Hins vegar birtist blátt og svart völundarhús. Í því miðju var búr fullt af draugum. Fyrir neðan búrið var undarleg vera, næstum því kringlótt, og gul eins og sólin. En svo fór allt í gang. Veran lagði af stað til vinstri, og hámaði í sig litlar gular kökur sem urðu í vegi hennar. Þegar hún rakst á vegg uppgötvaði ég að ef ég hreyfði hnúðinn fremst á prikinu gat ég stýrt litla gula kallinum.

Þetta var Pac-Man.


Með því að smella hér geturðu prófað að leika við hann. Góða skemmtun!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu