01 desember 2005

Leyndarmál frægðarinnar

Hef verið að horfa á allsvakalega lélegan raunveruleikaþátt sem heitir Rock Star - INXS. Söngvarar á þrítugs- og fertugsaldri keppast um að verða næsti söngvari í þessu bandi sem þótti töff í kringum 1987. Hrikalegt að sjá þá núna. Góð auglýsing fyrir óæskilegar aukaverkanir kókaíns. (It turns you into a prick.) Allir eitthvað að reyna að vera töff, með alpahúfur, sólgleraugu, hökutoppa. Nema einn, sem er eins og bangsi, feitur og loðinn, með mikið alskegg. Ef maður hitti hann í dimmu húsasundi væri eins gott að vera með hunang á sér.

Samt skrítið að nokkur skuli vilja vera söngvarinn í INXS. Þessir gaurar eru svo leiðinlegir að upphaflegi söngvarinn drap sig. Hann hefur að vísu greinilega verið með fetish fyrir leiðinlegu fólki þar sem hann stal hinni "gullfallegu" Paulu Yates frá Bob greyinu Geldof. Paula hefur hugsað "hvað er ég að spá að vera með manni sem lítur út eins og djönkí, þegar ég get verið með manni sem... er djönkí!?"

Hann hafði líka viljastyrk. Það er ekki á allra færi að hengja sig í hurðarhúni á hótelherbergishurð. Í beltinu sínu, og þarafleiðandi dó hann með allt niður um sig.

Ástæðan fyrir því að ég nenni að horfa á þetta ógeð er sú að ég rak upp stór augu eitt kvöldið þegar þetta var á skjánum fyrir slysni og var verið að kynna keppendur. Ég heyrði nafnið Ty Taylor. Sem er gamall skólabróðir minn. Gott ef hann reyndi ekki að ríða mér. Og hann þótti á þeim tíma (1989-91) mesta talentið í skólanum.

Og nú, 15 árum síðar er hann að reyna að komast í INXS. Dapurlegra en orð fá lýst.

Annars er það með ólíkindum hvað það eru fáir úr þessum rándýra skóla sem hafa meikað það að einhverju ráði. Ethan Hawke var auðvitað heitur á tímabili, og Kali Rocha hefur sést í nokkrum bíómyndum (man samt ekki nafnið á neinni), Maduka Steady var í Lorenzo's Oil með Susan Sarandon og Nick Nolte, og auðvitað snillingurinn Taj Johnson, sem lék á móti Jóhönnu Jónas í Parker Lewis þáttunum sálugu. Yancey Arias birtist reglulega í CSI og Law and Order þegar þá vantar sætan latínóvondakall. Jú og svo sá ég myndband með Mike Messer þar sem hann var að spila barnatónlist. Hann var í súpergrúppunni Spiral Staircase með mér.

*EDIT* Var rétt í þessu að fá ábendingu um að Katie Finneran hafi verið í Frasier "um tíma", hvað sem það þýðir. Mig rámar í skrækróma ljósku í þeim þáttum, en hef bara ekki þekkt hana. Hún vann sér það til frægðar að mæta mér á götu um miðja nótt, skólausum með tekílaflösku í buxnastrengnum. Þóttist hafa miklar áhyggjur af mér og allt, en ég sagðist bara vera á leiðinni í partí...

Svipað með krakkana sem ég var með í skóla í London. Maður fréttir af þeim að ströggla í off-off-West End (basically leikrit sem eru sýnd á efri hæðinni á einhverjum pöbb) og þess háttar. Helst að krakkarnir sem voru að læra leikstjórn með mér séu eitthvað, allavega ein orðin artistic director hjá leikhúsi í Norwich, og einn í óperuhúsi í Skotlandi.

Kannski maður ætti að smala þessu liði saman í raunveruleikaþátt - So you think you can act?

Engin ummæli: