Símtöl við foreldra

Báðir foreldrar okkar hjónanna hafa hringt í okkur í dag.

Karlinn: "Varstu að hringja?"
Rósa: "Nei."
Karlinn: "Það hringdi einhver, ég hélt það hlyti að vera þú, það hringir enginn annar..."
Rósa: "Fáðu þér númerabirti."

Kerlingin: "Ertu kominn heim?"
Ég: "Já, en ég er að elda."
Kerlingin: "Hringdu þegar þú ert búinn."

Skömmu síðar.

Kerlingin: "Ég vissi ekki hvort þú hefðir verið að reyna að hringja í mig, það er sko búið að vera á tali hjá mér."
Ég: "Neinei, en ég er að borða."
Kerlingin: "Jájá, það er allt í lagi..."
Ég: "Ég hringi í þig eftir nokkrar mínútur, ég ætla að klára að borða."
Kerlingin: "Já, endilega vertu fljótur, ég er að fara að sofa." (Klukkan er 20:15)

Svo hringdi ég aftur, eftir hálftíma röfl var ég farinn að svífa milli svefns og vöku, umlandi með reglulegu millibili til að vera ekki dónalegur. Þá byrjaði síminn að pípa. Ég er sko með þráðlausan heimasíma (með númerabirti, muna að tékka næst hvort þessi aumkunarverðu gamalmenni séu að plaga mann) og þegar hann er að verða battó þá pípir hann svo hátt að það heyrist á Hlemmi.

Og pípið vakti mig, og bjargaði mér því ég var löglega afsakaður að binda endi á símtal, hvers tilgang ég mun aldrei skilja. Rámar samt í að hafa heyrt í svefnrofunum ýmsan fróðleik um námsefnisgerð á Nýja-Sjálandi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu