Pavlov og vinnan

Heilsuleysi hefur hrjáð mig undanfarna daga. Veit ekki hvort það tengist skemmtanalífinu en ég var mjög duglegur á föstudagskvöldið var, hékk með Nikka og Óla alveg fram undir að strætó færi að ganga og var þessvegna láréttur allan laugardaginn. Og ekki hjálpaði að Chris kom í heimsókn þannig að ég var láréttur að þamba Stellu og horfa á fótbolta allan laugardaginn. Mánudagsmorguninn vaknaði ég svo allverulega slappur, og reyndist með hita svo ekki fór ég í vinnuna. Í morgun, þriðjudag, var ég aftur hitalaus og bara í nokkuð góðum fíling þegar ég vaknaði svo ég dreif mig út á Hlemm. Var samt varla kominn þangað þegar ég fór að finna til óþæginda, eins og kuldahrolls og sársauka í liðamótum. Harkaði af mér og afskrifaði þetta sem áhrif hryssingslegs veðursins, en hefði betur hugsað málið aðeins nánar. Vinnufélagar mínir heilsuðu mér allir sem einn með sömu orðunum: Þú ert alls ekki orðinn frískur, er það? Og ég varð að játa það eftir eina kennslustund að ég væri betur geymdur heima (þar sem ég er núna) og flýtti mér út á stoppistöð.

Þegar komið var í Mosó þurfti ég að skipta um vagn, og þá varð ég var við ansi skrítna tilfinningu, þegar ég gekk niður brekkuna að skýlinu þar sem vagninn til Reykjavíkur kemur að bjarga manni. (Ég lenti einu sinni í því að missa af strætó og vera fastur í Mosfellsbæ í hálftíma og það sannaði fyrir mér þá kenningu að tíminn sé afstæður því á vissan hátt stendur sá hálftími enn yfir.)

Kuldahrollurinn hvarf, og í staðinn hríslaðist annarskonar hrollur um mig, um leið og ég stóð mig að því að flissa eins og smástelpa. Og það rann upp fyrir mér að þessi hrollur, og þetta fliss, er nokkuð sem grípur mig á hverjum degi þegar ég er á leið heim frá vinnu. Burtséð frá því hvort vinnudagurinn hafi verið langur eða stuttur, léttur eða erfiður, skemmtilegur eða leiðinlegur. Alltaf sama viðbragðið. Eins og bjallan sem Pavlov hringdi fékk hundinn til að slefa, hvort sem bjöllunni fylgdi matur eður ei.

Raunar skal ég viðurkenna að annarskonar Pavlovskt viðbragð á það til að grípa mig allt að tveimur klukkustundum áður en ég er kominn í brekkuna sem framkallar sæluhrollinn, en það er gríðarleg þorstatilfinning. Hún hefur reyndar fylgt mér lengur, og á fleiri vinnustöðum, og gerir vart við sig um það leyti sem ég hugsa fyrst til þess þann og þann daginn að bráðum sé ég búinn að vinna og geti fengið mér bjór.

Þorstatilfinningin hverfur ef ég fæ mér gos eða vatn, eitthvað kalt, en kaffi dugar ekki.

Að öðru... skoðanakönnunin heldur áfram, og nú eru atkvæðin orðin svo mörg að prósentan segir mér ekki lengur hvað margir hafa kosið (hvað eru 43% mörg atkvæði) en ennþá er ofbeldið vinsælasti kosturinn. Nú, ég hlýt að fara eftir vilja fólksins, þó persónulega finnist mér hinir valkostirnir þrifalegri.

Ég ætla mér ekki að fara út í það hér að skýra hvað veldur þessari vendettu hjá mér, læt nægja að segja að mælirinn hafi fyllst eftir áralanga beitingu andlegs ofbeldis. Sem hefur by the way ekki hætt, því síðast í gær átti að láta mig fá samviskubit yfir að hafa ekki svarað í símann einn daginn. Þegar tveimur símtölum hafði verið svarað sama dag, en reynst algerlega tilgangslaus samtöl, og hið þriðja reyndist vera í því skyni að draga mig, sárlasinn manninn, í endurvinnsluna með uppsafnaðar birgðir þeirrar gömlu af hvítvínsglerjum.

Fyndið hvað sumt fólk vill alltaf fá önnur viðbrögð en því er boðið uppá. Dæmi: ef sú gamla fær kurteislegt svar vill hún frekar fá hreinskilni, en ef svarið er hreinskilið þá móðgast hún.

Ef þetta virkar eins og smámunir þá er það rétt, enda ætla ég ekki (eins og fram kemur hér að ofan) að fara út í að skýra allt málið.

Góðar stundir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu