22 október 2005

Championship Manager

Ég var í morgun að þreyta frumraun mína sem knattspyrnuþjálfari. Skólamót KSÍ og allir skólar að senda 10.bekkjarlið... nema við. Klébergsskóli er svo lítill að við þurftum að fara alveg niður í 6. bekk til að ná í lið. Keppt í 7 manna liðum og við vorum með 8 manna hóp, þar af 3 úr 10. bekk, 2 úr 9. bekk, 1 úr 8. bekk og 2 úr 6. bekk. Og hvernig haldið þið að hafi gengið?

Unnum fyrsta leikinn 3-1 og hefði átt að vera með meiri mun. Einn sjöttibekkingurinn skoraði meiraðsegja.

Svo kom Rimaskóli. Sem hefur úr öllu meiri mannskap að moða en við, og flestir að æfa saman í Fjölni. Og þeir unnu okkur 6-0. Lærdómsríkt.

Lokaleikur, úrslitaleikur um annað sætið í riðlinum og allt lagt í sölurnar. Áttum að vinna, vorum betri en hinir voru tuddar og við misstum tvo útaf meidda. Með einn varamann. Og ein hrikaleg varnarmistök kostuðu okkur, og lokatölur urðu 3-3.

Nú er ég að horfa á United vinna Tottenham. Öllu afslappaðri tilfinning. En hitt var helvíti gaman.

Engin ummæli: