06 september 2005

Strákarnir (sö)kkar

Fór á bíó í gær. Á mynd sem átti að vera frábær. Robbi er búinn að gera tvær fínar myndir, ókei, sú fyrsta var miklu meira en fín, hún var tímamótalistaverk, og sú númer tvö svona rétt slefaði í að vera fín. En þessi er ekki fín. Ekki nálægt því, og hann hefur enga afsökun.

Að vísu las ég í mogganum (og ekki lýgur mogginn) að gallað eintak af myndinni hefði komið frá klippistofunni í Englandi. Sem gæti verið afsökun. Nema að ég kaupi ekki það kjaftæði. Ef myndin var gölluð, af hverju var ég þá rukkaður um fullt verð (þúsundKELL!!!) og hvaða rugl er það að klippistofur í Englandi séu lokaðar um helgar. Bull, bull og tre gange bull. Svo ég endurtek: Robbi hefur enga afsökun.

Hann er með heitasta leikara Íslands í aðalhlutverki. En Björn Hlynur á ekki að leika homma. Í fyrsta lagi vegna þess að maður þarf ekki að sjá hann nema í 8 sekúndur í prómóviðtali til að sjá að hann er það sem ekki er hægt að kalla annað en "homophobic asshole" -- sem er kannski ekki honum að kenna, en ef hann getur ekki (sem leikari) sett sig inn í persónu sem er gay, þá á hann að afþakka hlutverkið. Annað er óprófessjónal. Það skín af honum í allri umfjöllun um myndina (að maður tali nú ekki um frammistöðu hans í myndinni sjálfri) að hann skammast sín fyrir að leika homma. Ég hefði frekar kastað Ívar Örn í þetta.

Hann er með heitasta handritshöfund Íslands með sér. Og sá (Jón Atli ofurhetja) kemur líka sterkur inn sem næstflottasti leikari myndarinnar. Býr til alveg geðveikt skemmtilega viðbjóðslegan karakter með rétt svo nóg af óvæntum hliðum til að vera samt trúanleg. En handritið er að mestu leyti misheppnað. Ókei, það eru grilljón fyndnir one-linerar og sumar persónurnar eru sæmilega samansettar, en í heildina gengur sagan ekki upp.

Hann er með heitustu barnastjörnu Íslands síðan Katla María var og hét, sannkallaðan Macaulay Culkin með hreðjar. 21. aldar strákurinn með 19. aldar nafnið: Arnmundur Ernst Backmann gersamlega rúllar myndinni upp. Hann er það eina við myndina sem virkar, gengur upp, og er í raun gersamlega, yfirþyrmandi frábær, og lætur báða foreldra sína líta út eins og amatöra!

Foreldrar hans eru Edda Heiðrún Backmann og Björn Ingi Hilmarsson leikarar. Fyrir þá sem ekki vita.

Hann er með óborganlegasta cameo-karakter Íslandssögunnar. Það er eldgamli kallinn með súrefnisgrímuna sem situr, þegir og hlustar á ruglið í hinum stjórnarmönnunum í KR sem meika ekki að vera með homma í liðinu hjá sér. Hér gæti ég farið út í doktorsritgerð en læt það nægja að þegar pabbi aðal, sem er líka þjálfari KR, segist vera orðinn að athlægi, þá finnst engum það skrýtið, burtséð frá kynhneigð sonar hans. Hann er þjálfari KR. Ergo: hann er athlægi. Allir þjálfarar KR síðan Víetnamstríðinu lauk hafa verið athlægi. Það er það sem gerir súrefnisgrímukallinn svona flottan: maður ímyndar sér að hann sé að hugsa "hvað í fokking helvíti hefur orðið um klúbbinn minn?" og hafi ekkert getað sagt síðan 1968.

En draslið gengur ekki upp. Besta dæmið: KR er látið fara í megakrísu þegar aðalgæinn hjá þeim er látinn hætta fyrir það að vera gay. Þeir tapa hverjum leiknum á fætur öðrum, meðan hommarnir vinna utandeildina með stæl. Þannig að maður á að halda að KR þurfi að fá öfuga strikerinn sinn aftur, og það er meira að segja ákveðið á stjórnarfundi. Samt vinna þeir hommaliðið 8-0 á sérstökum Pride-hátíðarleik. Og aðal samþykkir að ganga í KR aftur. Til hvers?

Ég vil fá endurgreitt. Og ekki bara af því að ég sá gallað eintak af mynd. Heldur af því að ég sá gallaða mynd.

Engin ummæli: