Beware the Red Lion!

Var boðinn í ammæli til Þóru vinkonu í kvöld. Hún býr í vesturbænum, nánar tiltekið í Sörlaskjóli. Ekki henni að kenna svosem. En þar sem þetta var svona rauðvíns og ostakvöld og Rósa var að vinna í bakaríinu sem er þarna rétt hjá, þá datt mér í hug að það væri tilvalið að hittast í borgara og bjór á Rauða Ljóninu áður en við færum í partíið.

M I S T A K E

Minn mætti á staðinn rétt uppúr 6 og pantaði bjór. Spurði svo (og sagði svo) hvort hægt væri að fá tvo borgara með frönskum. Ekkert mál sagði gaurinn á bak við barinn. Fínt, sagði ég, ég ætla þá að panta þá eftir smástund þegar konan mín mætir.

Svo sest ég og byrja á bjórnum og horfi á Man United leikinn, sem var í sjónvarpinu og tengist augljóslega óbeint þeirri ákvörðun minni að rétt væri að fara á Rauða Ljónið áður en farið væri í þetta afmæli í vesturbænum. Leigubíll frá Players eða Ölveri hefði kostað óþarfa pening.

Svo líður og bíður og loks mætir konan. Svo ég fer og bið um að fá matinn sem ég pantaði áðan.

Þá er þjónninn alltí einu orðinn kokkur, sestur við barinn og farinn að sötra bjór, og svarar mér óvænt á ensku með þeim orðum að vaktin hans sé búin og það sé engan mat að fá.

Þar á eftir fylgja orðaskipti sem ég rek ekki hér í smáatriðum en enda með því að fíflið stormar inn í eldhús með orðunum "I'll make your fucking burgers!"

Með þessu fylgdu einhverjar afsakanir um að eigandi staðarins hefði átt að vera löngu kominn að leysa þennan nýbúa af í eldamennskunni (þótt stundum í rökræðunum hefði mér verið sagt að eldhúsið á þessum "veitingastað" lokaði klukkan 18) og þess vegna væri hann svona fúll.

Svo komu borgararnir (einkunn: 3.8) og franskar (einkunn 5,7) með kokkteilsósu (einkunn 4,2) og tveir bjórar í viðbót (einkunn 9.9) og við gæddum okkur á draslinu, horfðum á restina af leiknum og stóðum á fætur.

Ég fór á barinn, spurði hvort margnefndur eigandi væri nokkuð mættur, og þar sem svo var ekki skrifaði ég nafn og símanúmer á miða og sagði að hann mætti hringja í mig ef hann vildi rukka mig fyrir veitingarnar.

Svo sjáum við til.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
SNILLD !!! og hvað ... er hann búinn að hringja ??
Nafnlaus sagði…
Haha, þú ert aldeilis kröftugur, lætur sko engan vaða ofaní þig tja nema kannski borgara og bjór ;)

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu