Enn um atburðina í London - ferðasaga

Fyrir nokkrum árum var ég í London að vinna með íslenskum leikhópi sem var að sýna í Institute of Contemporary Arts sem er örstutt frá Trafalgar Square, við St. James's Park.

Þegar síðasta sýning var búin og búið að hlaða draslinu okkar í sendiferðabíl, stakk pródúserinn upp á því að við héldum smá útipartí. Við áttum helling eftir af víni sem sendiherrann hafði rausnast til að gefa okkur, og var ákveðið að setjast í garðinum og chilla.

Ég skildi við liðið, þurfti að finna stað til að leggja sendibílnum. Ók fram og aftur um göturnar í Westminster, og fann loks litla botngötu þar sem engir bílar voru í stæðunum. Fór svo og fann hina og fékk mér í glas.

Eftir svona hálftíma röltum við öll aftur að götunni þar sem bíllinn var. Um leið og við gengum að bílnum komu þrír lögreglubílar vælandi inn götuna og stönsuðu hjá okkur. "Eigið þið þennan bíl?"

Ég varð til svars. Já, leikhópur, vorum að klára uppí I.C.A. og erum á heimleið.

"Við erum búnir að senda eftir sprengjuleitarmönnum. Vitið þið ekki hvar þið hafið lagt bílnum? Þið eruð við bakgluggann á nr. 10 Downing Street."

Ég baðst margsinnis afsökunar á hugsunarleysi mínu að leggja bílnum þarna.

"Jájá vinur. Það verðum nú samt við sem fáum skammirnar, að þú skyldir geta lagt honum þarna og komist burt óséður. Heppinn samt að þið komuð núna. Með allar þessar ljósagræjur í bílnum hefði gegnulýsingin örugglega orðið til þess að við sprengdum hann í loft upp."

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu