08 júní 2005

Upphitun fyrir Amsterdamsöguna

Hér kemur stutt saga sem ég var orðinn of uppgefinn til að bæta aftan við þessa löngu löngu. Hún gerist í Amríku eins og sú fyrri, og tengist bíltúr. Í þetta sinn var förinni heitið til Boston, þar sem vinur minn Danny var við nám. Bíltúrinn var alls ekki eins langur og sá til Florida, en lengri en ég átti von á þrátt fyrir það. Ég lagði af stað uppúr hádegi og hélt að ég yrði kominn um kvöldmat en það var sko aldeilis ekki. Leiðin lá frá Pittsburgh, eftir hrikalegum vegi sem kallast Pennsylvania Turnpike, og var byggður held ég sem aðal samgönguæð þeirra í fylkinu frá austri til vesturs. Helvítið er ekki malbikað, heldur steypt, sem gerir að verkum að maður er kominn með syngjandi hausverk strax eftir hálftíma. Og alls ók ég eftir þessum ófögðnuði í eina fjóra klukkutíma með litlum pásum. Rétt áður en komið er til Philadelphiu beygir maður til vinstri (í norðurátt) og stefnir á New York. En í stað þess að fara inn í og í gegnum þá frábæru borg þá heldur maður áfram í norður, það sem kallast "Upstate" í New York, til að geta svo beygt aftur til hægri (í austur) inn í Massachusetts-fylki að vestan og þarf að keyra eftir því fylki endilöngu þangað til Boston blasir við út við Atlantshafsströndina. Og það var þarna Upstate sem ég ákvað að brjóta lögin soldið (þetta var á þeim árum sem mér fannst allt í lagi að brjóta lögin) og keyrði niður lítinn afleggjara til að fá mér smók. Ég hef eflaust talið að það hafi orðið til þess að ég færi að hugsa skýrar, en svo var alls ekki.

Þannig var nebblega, að strax eftir að ég hélt af stað aftur, tók ég eftir því að bensínmælirinn hjá mér var kominn niður fyrir "E" og ég keyrði út í vegakant, tók upp vega-atlasinn minn og reyndi að sjá út hve langt væri í næstu bensínstöð. Reyndust það einar 5 mílur, og var auðvelt að fylgjast með framvindunni á leið þangað, þar sem kaninn setur lítil skilti í vegakantinn á mílu fresti.

Tankurinn entist rúmlega þrjár mílur, og þá dó bíllinn. Ég út, og þá fattaði ég hvað það var orðið svakalega dimmt. Engir ljósastaurar þarna í skóginum. Ég heyrði vélarhljóð, en það var á hinum helmingi vegarins, og ég sá ekkert þar því það var skógarbelti sem skildi vegarhelmingana að. Eina sem mér datt í hug að gera var að bíða eftir að bíll kæmi á leið í sömu átt og ég. Og áður en langt um leið kom risastór trukkur, og mér til dálítillar undrunar stoppaði hann hiklaust og tók mig uppí. Ég útskýrði að ég þyrfti bara að komast á næstu bensínstöð, sem var auðsótt mál, og tæpum tveim mínútum síðar var ég kominn þangað, trukkurinn á bak og burt, og sem betur fer var gaur á bak við lúgu sem reyndist fáanlegur til að láta mig hafa brúsa.

Það var þá sem ég fattaði að veskið mitt var ennþá í bílnum.

Eftir miklar fortölur af minni hálfu, og allskyns formælingar og hótanir af hálfu gaursins í lúgunni samþykkti hann að lána mér eins dollars virði af bensíni. Og flótlega kom bíll sem var á leiðinni í átt að bílnum mínum og ég sníkti far. Skömmu síðar var ég kominn áleiðis út í myrkrið.

Það var þá sem ég fattaði að ég myndi aldrei sjá bílinn í gegnum myrkrið og trjágróðurinn.

Ég reyndi að reikna út hvar bíllinn hlyti að vera út frá míluskiltunum, sem voru auðvitað ekki með sömu tölum og hinumegin enda að telja vegalengd í öfuga átt. En þegar ég taldi mig kominn á réttan stað bað ég um að vera settur út. Og nú var ekkert annað að gera en að klöngrast í gegnum trjáþykknið, með bensínbrúsann í hendinni, og eftir allmargar rispur var ég kominn í gegn, og hafði ekki verið bitinn af neinu kvikindi.

Það var þá sem ég fattaði að nú vissi ég ekki í hvora áttina ég átti að fara. En ég mundi hvorumegin míluskiltin voru og labbaði af stað þangað til ég fann eitt þeirra. En að ég gæti séð á skiltið, það var vonlaust. Þannig að aftur þurfti ég að bíða eftir að bíll kæmi. Þegar það gerðist sá ég að ég var á réttri leið, og að bíllinn minn væri rétt við næsta míluskilti. Þannig að ég labbaði af stað. Eftir nokkrar mínútur kom annar bíll. Með blá blikkandi ljós á þakinu. Hann keyrði fram fyrir mig og stoppaði. Út steig laganna vörður og spurði mig nokkurra spurninga. Hver ég væri, á hvaða leið, hvað væri í brúsanum osfrv. Bíllinn á undan hafði auðvitað látið vita um grunsamlegar mannaferðir í myrkrinu. Það kom helst á óvart að löggan virtist halda að ég héti Barry, starfaði á bílaverkstæði í nærliggjandi bæjarfélagi, og að brúsinn væri fullur af bjór. Barry, ef þú ert að lesa þetta: ekki drekka bjór úr bensínbrúsum vinur, það er óhollt. En mér tókst að sannfæra lögguna um hið rétta, og hann var svo hupplegur að bjóðast til að skutla mér að bílnum mínum. Hann sagðist hinsvegar þurfa að leita á mér, svona rétt til að fullvissa sig um að ég væri óvopnaður og myndi því ekki freista þess að skjóta hann í hnakkann þegar hann hefði ekið af stað.

Það var þá sem ég fattaði að grasið frá því áðan var enn í buxnavasanum mínum.

En fyrir eitthvert kraftaverk fannst það ekki, og hálftíma síðar var ég búinn að hella á bílinn, búinn að skila brúsanum og borga bensínið, og kominn aftur af stað á leið til Boston. Þegar ég var rétt kominn inn fyrir borgarmörkin gerðist svo það síðasta í þessari sögu sem er frásagnarvert. Nú var ég orðinn mjög þreyttur, enda klukkan gengin fimm um morgun. Ég kom að umferðarljósum þar sem ég þurfti að beygja til vinstri. Ég hægði á mér, rétt lokaði augunum eitt sekúndubrot (eða það fannst mér), og þegar ég opnaði þau aftur var ég búinn að taka beygjuna. Á rauðu ljósi. Í svefni.

3 ummæli:

Anna sagði...

Ó mæ god ... þessar ferðasögur þínar .... þú ert náttlega bara bilaður !!!

greifinn sagði...

ó mæ god, my ass! ég fæ ekki betur séd en ad vidbrögd bjössa á thessari ögurstundu, á thessari ystu nöf gedveikinnar, hafi verid lógísk, úthugsud og gullfalleg!

Immagaddus sagði...

Sknilld........

Immagaddus segir........