Enn ein ferðasaga í veganesti, svo er ég farinn til Spánar að sækja efni í fleiri ferðasögur

Þegar ég kom til Eistlands árið 1994 hafði strax mikið breyst. Eistar voru farnir að fatta að það var hægt að græða á ferðamönnum, þannig að flestir voru búnir að læra ensku, en það var ekki eins og allir væru búnir að fara í þjónaskóla. Maður gekk inn á restaurant og fann greinilega að maður var að trufla þjóninn. Og á einum bar varð mér það á að biðja um bjór. Hafði lært fyrr sama dag á einhverri outdoors tónlistarhátíð (þar sem flestar hljómsveitirnar voru lókal og aðalhljóðfærið var ennþá harmonikkan) að panta bjór á Eistnesku og ætlaði að monta mig. Palaún ölú? spurði ég barþjóninn (ef ég hefði viljað tvo bjóra hefði ég sagt Palaún kaks ölú, því Eistneska er skyld finnsku), en barþjónninn horfði á mig og sagði það sama og hollenska stelpan í Grolsch auglýsingunni: no cerveza! Auðvitað ekki á spænsku, en þar sem ég er málamaður mikill gat ég skilið að Nje ölú þýddi að það var engann bjór að fá. Í staðinn bauðst vodka. Í 3dl glasi. Án klaka. Án blands. Og kostaði innan við krónu.
Í Lettlandi var minna um að menn kynnu erlend tungumál, því þar varð þróunin ekki eins hröð. Sumstaðar var hægt að finna fólk sem talaði þýsku. Það hjálpaði mér lítið því ég tók frönsku sem þriðja mál í menntó, og til að vera kúl valdi ég rússnesku sem fjórða mál. Mínum síðasta tíma í því máli hafði nú lokið einum sex árum áður en ég fór í þessa reisu, og þú getur ímyndað þér hversu oft ég hafði haft tækifæri til að æfa mig.
En í Litháen fannst enginn maður sem talaði neitt vestrænt mál. Nema tveir gaurar sem stóðu fyrir utan banka klukkan hálfsex að morgni í hrókasamræðum á íslensku, en sú tilviljun var bara einum of súr, og eru þeir úr sögunni.
Þjóðarréttur Litháa er einhverskonar kebab á grillpinna úr stáli. Maður sér fyrir sér hvernig þetta varð þjóðarrétturinn, svipað og með hrútspungana: þeir hafa tínt til það sem fannst ætilegt og stungið sverðinu sínu í gegnum það, grillað það síðan á báli í mígandi rigningu og norðaustan 8-13 metrum á sekúndu. En það var útúrdúr. Því þessi tiltekni þjóðarréttur býður uppá allsvakalega matareitrun, ef grillpinninn er ekki þrifinn almennilega. Og þar sem Litháar voru á þessum tíma komnir styst allra Eystrasaltsríkjanna í að læra um þjónustulund, þá var ekkert verið að þrífa grillpinnann fyrir fátæka túrista sem ekki tippsuðu sérlega feitt.
Þannig að ég stóð á brautarpallinum í Kaunas, laust fyrir kl. 3 um nótt, að bíða eftir næturlestinni til Riga. Miklu ódýrara að taka alltaf næturlestir en að borga fyrir hótel. Og ég ældi eins og múkki. Nei, eins og albatross. Heljarvatnsmiklar gusur gengu upp úr mér, og þar sem ég skalf og titraði á meðan, úðaðist ófögnuðurinn yfir mestallan brautarpallinn. Og vakti athygli hverra? Auðvitað lögreglunnar. Og þetta voru alvöru lögreglumenn með rauðu stjörnuna enn í júníforminu og kalashnikov hangandi á öxlinni. Þeir gengu að mér ógnandi á svip og sögðu eitthvað við mig á rússnesku. Ég skildi ekki múkk (né múkkinn heldur). Þeir endurtóku, og þá fóru eldgömul ryðguð og rykfallin tannhjól í heila mínum að snúast. Þeir voru að spyrja hvort ég væri fullur. Og mér tókst, til svo mikillar furðu að ég fatta það ekki enn, að svara þeim að nei, ég væri ekki drukkinn, heldur hefði etið óheppilegan kvöldverð. Ég er nokkuð viss um að þetta hafi verið orðin sem ég notaði, en allavega lærði ég aldrei rússneska orðið yfir matareitrun. Sér er nú hver menntunin.
Lögregluþjónarnir glottu, stungu upp á að ég fengi mér Pepsi Cola, og gengu á braut.

Þá ég farinn til Spánar, heyrumst síðar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu