Gamlir hundar

Oft er erfitt að kenna gömlum sauði að hlusta. Tengdapabbi kíkti í heimsókn um helgina. Konan var með í för, og ég var búin að segja þeim að ég væri á fullu að mála hurðina að íbúðinni. Sem er ekki í frásögur færandi. Nema eftirfarandi samtal átti sér stað þegar sá gamli hafði arkað inn um dyrnar, stigið beint á dagblað sem lá á gólfinu og í málningarklessu sem var þar:
Geiri, stoppaðu, þú hefur stigið í málningu.
- Ha?
Þú hefur stigið í málningu, það er málning neðan á skónum þínum.
- Jájá, það gerir ekkert til.
Ég var ekki að hafa áhyggjur af skónum. Þú ert að spora út allt stofugólfið hjá mér.
- Ha?
Þú ert að setja málningarklessur út um allt gólf.
- Jájá, það er allt í lagi.
Nei, það er ekki allt í lagi. Viltu gera svo vel að fara úr skónum.
- Ha?
Geturðu farið úr skónum áður en þú sporar meira út.
- Viltu að ég fari úr skónum?
Já takk, það væri ágætt. Áður en það fer meiri málning á gólfið.
- Ha?
Áður en það fer meiri málning á gólfið. Það eru málningarklessur á gólfinu eftir skóna.
- Jájá, það gerir ekkert til.
Jú, það gerir til, við viljum helst ekki hafa málningarklessur á gólfinu.
- Ha?
Það gerir víst til.
- Neinei, þetta næst nú af með vatni.
Þetta er reyndar olíulakk.
- Ha?
Þetta er olíulakk, ekki víst að það náist af með vatni.
- Nújá. Jæja, það er allt í lagi.

Hálftíma síðar, eftir að ég hafði skriðið um á fjórum fótum með svamp og hreinan uppþvottalög og skrúbbað málninguna upp:

- Sko, sagði ég ekki að það væri ekkert mál að ná þessu af!

Ummæli

Immagaddus sagði…
Sælir eru heyrnadaufir.
Ég sé þetta svo fyrir mér.
Einskær snilld.....

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu