15 apríl 2005

Ég sætti mig við þig og ég sagði aldrei neitt...

... en það er satt, það kostar að eiga vin.

Þetta er úr lagi eftir Megas. Og hann hefur rétt fyrir sér. Það getur kostað mann peninga að eiga vini. En hitt er réttara, að það kostar stundum peninga að losna við vini sína. Eða allavega getur það verið fín leið til að fá tímabundinn frið fyrir vinum sínum að lána þeim fé. Þá hringja þeir ekki af fyrra bragði. Ég hef hinsvegar verið að komast að því að það er ódýrara en ég hélt. Ég stóð í þeirri trú að maður þyrfti helst að lána stórar fúlgur til þess að fólk færi að forðast mann.

Árið 1999 var ég nýfluttur til Íslands, og litli nýbúinn eignaðist þá vin/drykkjufélaga, sem ég komst seinna að því að var heavy dópisti. Eina skiptið sem ég hef þekkt svona alvöru djönkí. En ég fékk hjá honum einhverja grátsögu um vonda menn sem væru á hælunum á honum og vildu pening, og hann ætti von á fúlgu frá Tryggingastofnun any day now. Og nýbúinn lét blekkjast. Lánaði þessum manni rúmlega hundrað þúsund kall, sem tók svo margar vikur að innheimta. Þegar hann hafði loksins skilað öllu var ég beðinn um að lána honum fimmþúsundkall. Hann fékk ég aldrei til baka, og heyrði hvorki né sá þennan mann fyrr en mörgum árum seinna, þegar hann var búinn að fara í klínöpp og orðinn óþekkjanlegur.

Í fyrra var ég oft að hanga með gaur utan af Nesi. Og einhverntímann bað hann mig um að lána sér tíuþúsundkall svo hann kæmist út að djamma um helgina. Það tók vikur að fá þann pening til baka, og ég varð meiraðsegja að ljúga að honum til að fá hann til að hósta upp peningunum. Sem hann svo sló mig um aftur skömmu síðar. Með þeim orðum að það væri bara þangað til á föstudaginn. Hefur enn ekki borgað mér. Og lét ekki í sér heyra mánuðum saman. Hitti hann á djamminu fyrir stuttu. Hann spurði hvort ég væri enn fúll útí sig. Ég sagði honum bara að hann mætti ennþá borga mér tíuþúsundkallinn. Hann lét mig hafa þrjú.

Og í fyrradag hitti ég mikinn vin minn á kaffihúsi. Hann var eitthvað blankur, og talaði um að hann þyrfti nú endilega að kíkja í heimsókn til mín í nýja pleisið. Svo ég lánaði honum þúsundkall. Þangað til næsta dag. Sem var í gær.

2 ummæli:

Anna sagði...

Þú ættir kannski að íhuga það að hætta að lána vinum þínum peninga???
Nei bara svona smá hugdetta :o)

Immagaddus sagði...

Hættu að lána honum pening.
Hann lifir greinilega í öðrum heimi....