Það getur verið erfitt að vera vinsæll

Í Klébergsskóla er nú nýlokið svokallaðri vinaviku. Þar voru nöfn allra starfsmanna sett í hatt, og hver dró sér sinn leynivin. Taskið var svo að koma leynivininum á óvart með orðsendingum, smágjöfum oþh. Ég varð ekkert smá ánægður þegar ég leit í hólfið mitt fyrsta daginn og þar voru heil sex páskaegg. Að vísu afar lítil, en þetta byrjaði vel. Svo fór gamanið að kárna. Daginn eftir var hólfið mitt eins tómt og legið í Lizu Minelli. Og sama var uppi á teningnum næsta dag, og ég fór að láta í mér heyra. (Þið vitið sjálfsagt flest að ég sit ekki á skoðunum mínum.) En kvartanir mínar báru engan árangur, því á þriðja degi beið mín ekkert nema vonbrigði, sorg og einmanaleiki. Ég var miður mín, því ég var búinn að splæsa tveimur páskaeggjum (öðru nokkuð stóru), pakka af harðfiski, piparpúkum og wine gums á minn leynivin. Nema á fjórða deginum skein loksins sól í lífi litla drengsins. Ég kíkti í hólfið mitt, milli vonar og ótta. Og það var sem ég heyrði englasöng þegar við mér blasti... flaska af Faustino. Sem er afbragðsgott rauðvín. Og var drukkið strax. Nú, þetta kvöld var síðan samsæti hjá skólastjóranum, þar sem átti að ljóstra upp hver ætti hvaða leynivin. Nema ég komst ekki í partíið vegna anna. Svo daginn eftir mæti ég snemma til vinnu, sit í vinnuherberginu mínu einn míns liðs, og þá kemur inn maður. Samstarfsmaður minn sem æru sinnar vegna skal vera nafnlaus hér (en þú veist uppá þig sökina). Hann segist þurfa að játa svolítið. Ég viðurkenni fúslega að ég varð uggandi og fannst jafnvel sem ég heyrði braka í skápahurðum. En þá kom játningin. Samkennari minn hafði vorkennt mér svo mikið að ég skyldi ekkert fá í skóinn, að hann hafði rokið út og splæst á mig bokkunni. Svo hafði hann farið í boðið til skólastjórans, og fékk þar að vita að íþróttakennari stúlkna væri minn leynivinur. Sú er ekki í skólanum nema tvisvar í viku, sem skýrir alla gjafalausu dagana. En hún hafði komið í skólann daginn áður, séð flöskuna og farið heim aftur með gjafirnar sem hún ætlaði mér að fá, því hún var viss um að hún hefði tekið feil á leynivinum. Það fyndnasta var að ég fékk þær gjafir fyrir rest, og reyndust það vera vínber, ostar og súkkulaði. Sem fór auðvitað einkar vel með fína rauðvíninu.

Svo var annað. Ekki jafn skemmtilegt. Hann Rasmus er dauður. Hann hvarf að heiman í síðustu viku, og við vorum rétt að verða úrkula vonar um að hann kæmi í leitirnar (sérstaklega þar sem það styttist í að við flytjum), en þá var hringt í mig frá Víðidal, og einhver hafði komið með hann, og virtist sem um bílslys væri að ræða. Þrjú og hálft ár höfum við búið í námunda við Suðurgötuna, sem er 4ra akreina hraðbraut. Og þrír kettir hafa týnt þar lífi. Mikið hlakkar maður til að flytja í einstefnugötu.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu