Back to work...

Þetta páskafrí var ekki lengi að líða. Enda var maður með sveittan skallann allan tímann að puða í íbúðinni. Mála, hefla, spartsla, pússa, fúga, bora, tengja, saga. Ég er búinn að vera svo duglegur að ég er viss um að ég er búinn að saga til næsta bæjar. Og við erum flutt inn, endanlega. Búin að taka einn dag í að ganga frá gamla húsinu og sér ekki högg á vatni. (Högg á vatni? Maður sér fyrir sér Tinky Winky, Dispy, Laa Laa og Po úti á miðju Þingvallavatni: Big högg...) Það er alveg ótrúlegt hvað maður sankar að sér miklu drasli. Hrúgan sem á að fara í Sorpu er orðin mannhæðarhá og álíka breið og bakhlutinn á konunni minni. Enda ætlum við að reyna að fá vörubíl lánaðan undir draslið.

Annars eru ýmsir miklir kostir við nýja húsið. Til dæmis er styttra þaðan, nánast til allra staða í heiminum. Nema í fiskbúðina Dunhaga. Við erum með Vitabar í göngufjarlægð (góðir borgarar, slappur bjór), apótek á næsta horni, tvær sjoppur innan við 100metra í burtu og þannig mætti lengi telja. Annars er önnur sjoppan nokkuð góð. Heitir Draumurinn og er víst orðin fræg fyrir að selja fleira en löglegt þykir. Enda var fyndið um helgina þegar Nikki vinur minn kom í heimsókn, og vantaði sígó. Við löbbuðum út á Rauðarárstíg og inn í Drauminn, báðum um pakka af einhverju að reykja, og fengum mjög svo dularfullt augnaráð frá afgreiðslumanninum (sem virkaði mjög hress) og hann spurði sisvona: Hvað viljið reykja, strákar mínir?

Annars mættur aftur í vinnuna, allt við það sama þar. Ég var látinn fylla út blað um það hvort ég vildi halda áfram að vinna hérna. Meðal annars var spurt, hvað finnst þér að betur mætti fara í skólastarfinu. Og bara gefnar 6-7 línur til að svara.

Ein spurning að lokum: Er Sæmi rokk með réttindi sem þroskaþjálfi?

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022

Feitibjörn tekur pásu