Jólabjórrýni Feitabjarnar 2018
Kæru landsmenn til sjávar og sveita, senn líður að jólum og nú eru jólabjórarnir komnir í búðir og á bari, okkur öllum til hugdeyfandi heilla. Íslenskt sem alþjóðlegt þjóðfélagsástand hefur sjaldan verið jafn ömurlegt og þar sem Engeyjarættin hefur ekki (ennþá) komist yfir einkarétt á ópíumskyldum verkjalyfjum þarf sauðsvartur almúginn að halda aftur af örvæntingunni með áfengi. Þetta er sérstaklega í brennidepli um jólahátíðina, því á þeim árstíma hefur uppsöfnuð gremja ársins tilheigingu til að brjótast upp á yfirborðið innan um leiðinlegar bækur, vondar smákökur og forljót bindi. Við eyðum peningum sem við eigum ekki til að kaupa handa fólki sem við þolum ekki drasl sem það vill ekki. Nú ætla ég ekki að hlífa ykkur við hinum óþægilega sannleik: Árið 2018 er grútslappt jólabjórár. Úrvalið er meira og breiðara en áður, en að sama skapi eru fleiri vondir bjórar en nokkru sinni fyrr og þeir sem eru góðir, ja það eru bara þeir sem eru alltaf góðir. Ekkert nýtt sem kemur á óvart, ...