Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021
Djöfullinn danskur! Þá er enn eittt árið að renna sitt skeið á enda og ekki hefur það nú verið neitt frábært, sama hvort þú ert launaþræll hjá ferðaþjónustufyrirtæki, kennari eða hjúkka. Ef þú ert þingmaður hefur árið reyndar örugglega verið fínt því launin eru ágæt og það virðist vera búið að taka þá ákvörðun að leggja niður kosningar svo það verður bara hægt að hirða launin áfram sama hvað kemur upp úr kössunum. Enda veit enginn lengur hvað kemur upp úr kössunum, hvað þá að mönnum sé ekki bara drull.
Árið hefur semsagt einkennst af vonbrigðum. Bólusetningarnar sem áttu að redda öllu stóðu ekki undir væntingum. Þríeykið sligaðist undan þyngd fálkaorðunnar og eftirlét samtökum atvinnulífsins að semja sóttvarnarreglur. Bjór hækkaði í verði.
Bjór. Hækkaði. Í. Verði.
Því ef það er eitthvað sem einkennir jólabjórframboð hinna íslensku brugghúsa, stórra og smárra, á þessu guðsvolaða ári, þá er það helvítis okurverðið. Bjórgerðarmenn hafa tekið til sín slagorð Alþýðusambandsins um að það sé nóg til.
Og það er nóg til af bjórsortum í ár elskurnar mínar. Á sjöunda tug mismunandi gerða, tegunda og afbrigða, sem framleiðendur eru allsendis ófeimnir við að verðleggja eins og um sé að ræða nauðsynjavöru sem fólk muni kaupa til að bjarga lífi sínu sama hvað hún er óforskammað dýr.
Og er það ekki einmitt þannig með jólabjór? Þegar árið er að klárast og veskið hvort sem er alltaf tómt, er nokkuð annað að gera en að ausa skyldusparnaðinum í misvonda hátíðarbjóra og skapa þannig þá fölsku tilfinningu að maður sé ríkisbubbi sem hafi efni á að spreða fé í jafn ónauðsynlega vöru og jólabjór?
Eða hvað, er jólabjór ónauðsynlegur? Því verður hver að svara fyrir sig. En Feitibjörn tókst á við verkefni ársins eins og hin fyrri ár, nema bara að nú var aldeilis glás derude. Smökkunarferlið tók marga daga og virtist aldrei ætla að enda því alltaf voru nýjar og nýjar tegundir að detta í búðir. Sem betur fer komu þær flestar á markað snemma í nóvember og fyrr en venjulega enda hefði lifrin í Feitabirni ekki lifað af hetjudáðina hefði hann ekki fengið þessa extra nokkru daga til að komast í gegnum þetta mission sem hann leggur á sig ár eftir ár af einskærri fórnfýsi svo fólk þurfi ekki í stórum stíl að eyða aðventunni og jólafríinu í að verða fyrir vonbrigðum með eitthvert fokdýrt sull sem reynist svo ódrekkandi.
Feitibjörn naut sem fyrr dyggrar aðstoðar Koppa-Krissa, svo lengi sem heilsufar þess durts entist, en það þvarr um miðbik ferlisins. Frú Feitibjörn kom að góðu gagni sem áður þegar þörf var á þriðja auga eða bragðlauki, en niðurstöður matsins eru í grunninn og lokin alltaf Feitabjarnar sjálfs.
Í ár er síðan bryddað upp á nýbreytni, því jólabjórrýni Feitabjarnar hefur nú verið sett við tónlist, sem tilvalið er að hlýða á við lesturinn og smökkunina. Það voru vinir Feitabjarnar í hljómsveitinni Mosa frænda sem settu saman þennan slagara og studdust þar við listsköpunaraðferð sem þeir kjósa að kalla "Baggalút fátæka mannsins" en hún byggir á því að búinn sé til íslenskur jólatexti (um jólabjór) við þekkt erlent dægurlag, en að í stað þess að nostrað sé við hnökralausan hljóðfæraleik sé frekar horft til DIY-ethic vinnubragða þar sem best er að hlutirnir séu sem fljótkláraðastir.
En nú... Nú skulum við leggja af stað í langferð, því hér hefst nú uppgjör og mat Feitabjarnar á íslenskum jólabjórum ársins 2021. Sem fyrr koma þeir ekki í neinni sérstakri röð nema sá besti er auðvitað nefndur í lokin. Skál í boðinu og gangið hægt um gleðinnar dyr!
--------------------------------------------------------------------------------
Frostrósir White Ale
4,5%
425 kr
Dömur mínar og herrar, við byrjum í stuði! Vinir Feitabjarnar í rokkbandinu Saktmóðigur eiga hittara sem heitir "2007 kemur aldrei aftur" en þeir yrðu ekki boðnir í partíið þar sem þessi drykkur er á boðstólum. Hann er bragðbættur með rósablöðum, þannig að ef fólk ætlar að ganga í það heilaga yfir hátíðirnar má hafa það í huga. Feitibjörn kemst í kvennafarsgírinn við tilhugsunina og ilmurirnn af rósablöðunum myndi örugglega vega upp á móti því ef villibráðin á dansgólfinu ilmar ekki alveg eins og vonast mætti eftir. Það er meiri metnaður í þessum bjór en Feitibjörn er vanur að sýna, hvort sem það er á kvennafari eða dansgólfi. Margt í gangi og jafnvel eitt og annað sem maður myndi sjá eftir næsta dag.
4*
--------------------------------------------------------------------------------
Hnetubrjótur Hazelnut Milk Stout
5,6%
798 kr
Árið 2021 eru margir jólabjórar í boði og talsverður hluti þess mikla úrvals eru bjórar af þessu tagi, bjórar sem kallast á við myrkrið í sálinni í dýpsta skammdeginu en brydda einnig upp á óvæntu twisti til hátíðabrigða. Það er hins vegar rétt að taka það fram strax að þessi mikli fjöldi bjóra af svörtu, stóru og sterku gerðinni heppnast mjög misjafnlega vel. Sumir eru æðislegir, sumir eru hundvondir og fjölmargir eru einhvers staðar þar á milli eins og þessi draumur ballerínunnar. Hann er ekki beinlínis vondur en bragðlítill og vatnskenndur, gæddur einhvers konar hnetuangan sem kemur eiginlega bara beint úr bökunarvörudeildinni í Bónus. Gæti verið hentugt að draga þennan bjór upp í jólabakstrinum ef þú vilt ekki vera áberandi fullur fyrir framan börnin. Fullur verður þú náttúrulega ekki því þig mun ekki langa í annan svona bjór.
2*
--------------------------------------------------------------------------------
Skreppur IPA
6,5%
499 kr
Það er spurning hvort sú einangrun sem fylgdi heimsfaraldrinum hafi gert að verkum að í Vestmannaeyjum hafi verið eitthvað óvenjulega erfitt að komast yfir hráefni til bjórgerðar. Hér virðast þeir hafa farið inn í Herjólfsdal og vonast til þess að finna þar nýsprottna humla til að bragðbæta IPA-jólabjórinn sinn. Dalinn þann tengir margt fólk við skemmtilegar minningar en því miður er líka of algengt að minningar þaðan séu sársaukafullar. Þar fundu Eyjamenn greinilega heldur enga humla, heldur einungis vonbrigði aflýstra þjóðhátíða og af bragðinu að dæma var ákveðið að notast í staðinn við lundaskít. Þessi bjór er svo vondur að það er komið út í Öfgar (see what I did there?)
1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Viking Jólabóndi IPA
6%
449 kr
Hér er aftur á móti verið að vinna með almennilega humla og úr verður ágætis IPA-bjór þó hann sé reyndar í bitrari kantinum svona ef maður vill vera að vinna með hátíð ljóss og friðar. Þetta er samt alveg stálheiðarlegur bjór fyrir bændur og aðra gúmmískóklædda menn. Bændur halda vissulega jól eins og annað fólk og við skulum alveg virða það en má samt ekki ætlast til þess að þeir fari í sturtu og spariföt og drekki bjórinn sinn úr fallegu glasi en ekki beint úr dósinni?
2 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Einstök Winter Ale
8%
599 kr
Þegar hríðin hamast á glugganum og þú kvíðir því að þurfa að fara út á svalir að sækja jólatréð og drösla því inn í stofu því gólfið verður örugglega allt á floti, þá er nú gott að geta hlýjað sér duglega að innan með fáránlega góðu jólaöli sem sameinar alla helstu kosti innilegs faðmlags, síðasta konfektmolans, áramótavindilsins og staups af viskíi á bílprófsaldri. Breiddu yfir þig teppi, hallaðu þér aftur í sætinu og njóttu. Þegar glasið er tómt ertu til í hvað sem er. Samt fyrst annan svona!
4*
--------------------------------------------------------------------------------
ORA jólabjór
5,2%
475 kr
Feitibjörn er vinur litla mannsins og það er fátt sem gleður hann meira en velgengni annarra. Þannig fékk hann til dæmis gleðigæsahúð við að sjá sviðs-sjálfu hróðugra meðlima í Skálmöld eftir vel heppnaða og marguppselda tónleika með Sinfó. Það sem gladdi Feitabjörn var einkum tvennt, annars vegar að þessir dásamlegu menn væru að standa sig svona vel og hins vegar að hafa ekki þurft að vera á staðnum.
Það er ákaflega snjallt ef þú vinnur við að framleiða ákveðna vöru en fyrir óheppni átt heima í landi þar sem bannað er að auglýsa vöruna, að ná öðru eins bylmingsskoti í skeytin og inn sem hér er á ferð þegar horft er til markaðssetningar. Grafísk hönnun dósamiðans er stórkostleg, brandararnir á miðanum fyrir þá sem nenna að lesa eru fínir, ORA hlýtur að hafa hent í smá spons á móti því að jólasíldin þeirra sé beinlínis auglýst á bjórdósinni... svona mætti áfram telja. Þegar það má ekki auglýsa bjór er auðvitað ekkert annað en geníal að koma með svona vöru sem allir eru að tala um. Samfélagsmiðlar fóru á hliðina og þegar Feitibjörn kíkti á Honkítonk þar sem verið var að frumsýna bjórinn var röð út á götu og slegist um að fá afgreiðslu á barnum. Stórkostlega mikil snilld og rétt að óska brugghúsinu til hamingju með það.
Verst með bjórinn.
1*
--------------------------------------------------------------------------------
Litla brugghúsið jóla hvað?
5%
495 kr
Hér er á ferðinni nýr jólabjór sem kemur í flösku með fallegum miða. Á honum stendur að við séum að vinna með piparkökur og það er gamaldags jólastemmning yfir vötnum, svo það er ekki laust við að Feitibjörn hafi verið farinn að hlakka til að smakka. Stundum hafa jólabjórgerðarmenn klikkað á því að ofgera bökunarvörunum svo það var auðvitað pínu kvíði líka. Því miður kemur bjórinn svo á óvart með að standa engan veginn undir væntingum og er eiginlega fullkomlega bragðaus.
1/2 *
-------------------------------------------------------------------------
Ölvisholt Hel Vetraröl Porter
7%
600kr
Svo sem alls ekki vondur bjór, þvert á móti. Kannski aðeins of mikill lakkrís og ekki margt annað en hann í gangi, en bjórinn rennur ljúflega niður og er svona bara frekar kurteis. Á jóllunum á auðvitað að sýna sínar bestu hliðar en það þýðir samt að maður á að reyna að snerta samferðafólk sitt á einhvern frábæran hátt, ekki bara sleppa því að vera með dólg. Hel er alveg ágæt en ekkert meira en það.
3*
Segull 67 jólapakki blóðappelsínuöl
5%
399 kr
Það er ákveðin jarðarfararandi yfir þessum bjór þó dósin sé glaðleg og skrautleg. Þegar hún var opnuð reyndi bjórinn að flýja út um alla stofuna og missti líklega þar með mojoið ef það var eitthvað til að byrja með. Einhverjar tilraunir virðast vera gerðar til að bragðbæta daufan bjór en það ber álíka mikinn árangur og að setja varalit á lík.
1*
Jólakisi IPA
7%
895 kr
Þetta er bara skrítið, nánast bara vandræðalegt. Það er alveg hreint svakalega mikið bragð af kisanum og einhver skrýtin sýra sem maður áttar sig ekki almennilega á. Hreinlega allt of bragðmikill bjór, sem væri líklega best nýttur til að skola skötubragðinu í burtu á Þorláksmessu.
1*
Svört jól chocolate milk stout
7%
698 kr
Alveg bara hinn þokkalegasti kolsvartur og nammigóður bjór sem siglir milli skers og báru, er ekki of rammur eða þjakaður af lakkrís en að sama skapi ekki alveg nógu hátíðlegur eða sérstakur til að slá í gegn. Fínn en ekki frábær.
3*
--------------------------------------------------------------------------------
Haltá jólaketti
5,5%
699 kr
Vááááá hvað þetta er mikið nammigott! Humlaður í drasl (Feitibjörn elskar humla) en svo er einhver keimur af löngu gleymdum ábætisrétti sem amma var vön að bera fram á annan í jólum en tók svo uppskriftina með sér í gröfina og nú er annar í jólum ekkert skemmtilegur lengur. Eða jú - héðan í frá má fá sér svona þurrhumlaðan mjólkurhristing frá himnum og sá dagur hefur nú aftur fengið sinn sess á hátíðinni.
4 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Leiðindaskjóða Red Ale
5%
499 kr
Þetta þykist vera jólabjór en minnir frekar á þá annars undarlegu gostegund Cream soda. Þetta er eins konar sauður í úlfagæru - þykist vera algjör spaði en reynist helst duga til að fá slag í nóló. Óspennandi og frekar glataður bjór.
1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Jóli Bæjó Session IPA
4,7%
403 kr
Ókei, nú erum við að tala saman. Jóli Bæjó er léttskýjaður og ljós, ávaxtakeimur í bragðinu - gleymum því ekki að í gamla daga komu ávextir bara á jólunum. Það er því ákveðin nostalgísk hátíðarstemmning í gangi hér. Jóli Bæjó býður þér glaðlegt brosandi knús og bendir þér á að hætta þessu tuði, koma þér í jólaskapið og brosa.
3*
--------------------------------------------------------------------------------
Hóhóhólísjitt Coconut Stout
10,5%
1090 kr
Gott fólk, nú gerum við smá breytingu á fundarsköpum og verða þrír bjórar dæmdir í einu. Talandi um að bjórgerðarmenn séu að rýja okkur vesalings fyllibytturnar inn að skinni með því hvernig þeir verðleggja bjórinn, þá er hér verið að ganga ansi langt því Hóhóhólísjitt kemur í ár þrefaldur til byggða. Glæsilegt hefði það getað orðið en svo einkennilega vill til að bjórarnir eru mjög misgóðir. Höfum eitt á hreinu, enginn þeirra er neitt annað en 100% gæðavara, bragðgóðir og vandaðir bjórar með miklu áfengismagni og tekst að sneiða hjá því að kókoshnetan sem vísað er til í nafninu verði of afgerandi. Allir fara bjórarnir beint í hjartaræturnar og þaðan í brosviprurnar og þeir eru allir mjög sætir og bragðríkir. Passið ykkur samt að fá ykkur ekki of marga í einu, allavega ekki fyrr en rauðu dagarnir koma. En semsagt: þrjú afbrigði af sama bjór eru í búðum, hver dós fyrir sig kostar skilding. Þá er nú gott að eiga Feitabjörn sem getur ljóstrað því upp að Widow Jane er alveg dúndurgóður bjór, sem átti alveg raunhæfan séns á að taka titilinn í ár. Peach Brandy útgáfan er hins vegar of áfengiskennd og Heaven Hill fer of langt í lakkrísáttina, þannig að forðist þessar tvær týpur. Widow Jane hins vegar... sjitt hvað hann er góður!
4 1/2 *
Widow Jane rokkar, hinir fá tvær stjörnur hvor.
--------------------------------------------------------------------------------
Viking Lite Jóla Epli og Kanil
4,4%
315 kr
Nú höfum við áður rætt það hvað hér er á ferðinni ævintýralega vond hugmynd. Í fyrsta lagi eiga "lite" bjórar ekkert erindi á jólavertíð, því það er árstíminn þegar við reynum sem mest að fela átröskunarsjúkdómana okkar. Í öðru lagi er búið að komast að þeirri niðurstöðu að epli og kanill munu aldrei gera vondan bjór betri. Feitibjörn hellti örlitlu í glasið með kvíða í hjarta eins og kona sem þarf að ganga gegnum yfirgefinn almenningsgarð um nótt. Fyrsti sopinn gaf fyrirheit því vatnsbragð var ráðandi, en svo kom kanilspark í pung sem var svo vont að það sveið alla leið upp í kok. Það eina góða við þennan bjór er að það er hægt að fá nokkrar krónur fyrir dósina á endurvinnslustöð.
0*
--------------------------------------------------------------------------------
Hvít jól mandarínu white ale
5%
399 kr
Partí!!!! Hér er verið að leggja sig fram og það heppnast sem lagt var upp með, lyktin og bragðið mjög afgerandi fyrir ljósan bjór og mandarínubragðið er trúverðugt. Hressandi og skemmtilegur bjór sem kemur manni í gott skap, passar til að fá mann til að langa til að dansa kringum skúringafötuna á þorláksmessukvöld.
3 1/2*
--------------------------------------------------------------------------------
Austri romm í jól hátíðarstout
6,3%
799 kr
Jájájájá! Stundum á maður skilið að verðlauna sjálfan sig. Þegar jólagjafainnkaupin hafa heppnast án þess að það komi synjun á kortið, valhnetukjarnarnir kveiktu ekki í eldhúsinu þegar þeir voru risttaðir fyrir Waldorfsalatið og ákvörðunin um að kaupa ekki fleiri merkimiða á gjafir reyndist rétt því akkúrat síðasti miðinn fór á síðasta pakkann - þá er í lagi að fá sér jólabjór sem er bragðbættur með rommi. En ekki hvað? Þú átt þetta skilið.
3 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Og natura Jóló stout
8%
1.168 kr
Ullabjakk! Þetta er beinlínis vont á bragðið. Áferðin er gruggug eins og þegar kaffikorgur endar óvart í bollanum og þú finnur það of seint, vitandi þá að þú munt gjalda þess á dollunni innan skamms. Bragðið er rammt og fúlt eins og drullupollavatn. Engan veginn eitthvað til að koma nálægt ef maður vill gera sér glaðan dag.
1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Forbidden fruit berry ale
6,4%
757 kr
Jólin eru tími hedonismans og stundum þarf hann að vera ímyndaður, sérstaklega á tímum sem þessum þar sem við fáum sárafá tækifæri til að verða okkur til skammar innan um ókunnugt fólk. Þessi bjór er djúsí og sexí eins og gleymd b-hlið með Síðan skein sól, liturinn minnir á varagloss en bragðið er með smá ferskjukeim í bland við krækiber. Skýjaður og subbulegur bjór eins og minningarnar morguninn eftir gott partí. Feitibjörn fékk hughrif um að ramba peðfullur á berjamó að vetri til, finna berjalyng undir snjóskafli þar sem berin eru aðeins farin að gerjast. You can guess the rest.
3 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Jóla Tumi
5%
498 kr
Á sumum heimilum er ekki hlakkað til jólanna. Pabbi kannski alltaf fullur yfir hátíðirnar og í staðinn fyrir dásamlegar samverustundir fjölskyldunnar blasir við baneitruð blanda af meðvirkni og hatri. Að alast upp á slíku heimili getur örugglega gert það að verkum að Makkintoss kalli fram hroll og ilmurinn af piparkökum veki velgju. Því jólin eiga að vera betri tími en aðrir tímar ársins. Jóla Tumi er hins vegar verri en hinn venjulegi (og frábæri) Tumi Humall sem við getum notið allan ársins hring.
2 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Bjúgnakrækir
5,2%
696 kr
Jólabjór ársins 2019 er mættur aftur og væntingar því alveg í botni. Borg brugghús hefur undanfarin fjögur ár komið með algerar neglur á jólabjórmarkaðinn og ekki sakar að hafa líka í raun startað trendinu að áfengislausir bjórar geti verið bæði kúl og bragðgóðir. Bjúgnakrækir er samt að einhverju leyti að missa marks í ár, þótt hann sé alls ekki vondur. Það er þarna þessi skemmtilegi reykkofakeimur sem sló í gegn í hitteðfyrra og að auki má finna skemmtilegan léttleika og ávaxtastemmningu. Humlarnir mættu hins vegar alveg koma sterkari inn og eftirbragðið lætur bíða eftir sér. Bjúgnakrækir er fínn en hefur verið betri.
3*
--------------------------------------------------------------------------------
JólaGull
5,4%
409 kr
0*
--------------------------------------------------------------------------------
Jóla Drangi
5,6%
519 kr
Að búa til venjulegan og hefðbundinn jólabjór er flókin jafnvægislist. Fjöldaframleiðslurisarnir hafa masterað meðalmennskuna sem þarf til að uppfylla lágmarkskröfur. Aðrir verða að reyna að gera betur. Jóla Drangi nær því miður ekki að standast viðmið í ár, er flatur og óspennandi.
1*
--------------------------------------------------------------------------------
Steðji halelúja jólasvartbjór
5,2%
432 kr
Djísös kræst! Nú hefur Feitibjörn bragðað ýmsan ófögnuðinn gegnum árin en þetta kann að vera nýtt met í vonskunni. Þegar bjórinn er kominn í glasið lítur hann út eins og staðið kók síðan í partíi sem hófst snemma í gærkvöldi en er rétt núna í þann mund að klárast ef eitthvað er að marka sírenuvælið í fjarska. Bragðið er síðan eins og út í staðið kókið hafi verið hellt tréspíra og tilfinningin er sú að það sé í raun bara verðskuldað að hella þessu í sig og eiga á hættu að verða blindur. Betra væri að missa bragðskynið en maður er ekki alltaf nógu heppinn.
- 1 *
--------------------------------------------------------------------------------
Tveir vinir og annar í jólum
5%
399 kr
Það er erfitt að átta sig á því hvers konar fólki muni finnast þetta vera góður jólabjór. Bragðið af honum er ekki sérlega gott, bæði er gervilegur appelsínukeimur allsráðandi og svo frekar beiskt eftirbragð. Blóðappelsínur eru varla mjög jólalegar jafnvel ef þær væru ósviknar. Ekki beinlínis vont en ekkert spes. Og jólabjór á að vera spes.
1 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Jóla Skarfur Stout
6,6%
635 kr
Ef maður pírir augun á nákvæmlega réttan hátt og leyfir ímyndunaraflinu að ráða getur nýfallinn jólasnjór á þykkri grenigrein minnt örlítið á kremið innan úr kókosbollu. Þessi bjór er að vinna með slíkt konsept. Sætur eins og eitthvað sem maður sækir í bakaríið að morgni dags í jólafríinu en eins og þegar maður er búinn með fjórðu vínarbrauðslengjuna og langar ekki í aðra enda kynnin við þennan bjór á því að það situr lítið eftir.
2*
--------------------------------------------------------------------------------
Tomorrow's dreams NEIPA
7%
739 kr
Það er hulin ráðgáta hvað á að vera jólalegt eða sérstakt við þetta sull, sem er í grunninn sæmilegur pale ale með skrítinni angan af vorblómum. Jólin eru jú almennt séð ekki talin eiga sér stað á vorin en hugsanlega var komið með blóm í skírnarveislu frelsarans. Það þarf svo að rannsaka hver setti blómvöndinn út í bjórinn hjá gestunum. Misheppnuð tilraun.
1 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Jóla Magnús frúktús fruit sour
6,3%
595 kr
Hér er mikill gleðipinni mættur í partíið og leynir heldur betur á sér. Það er hressandi lykt og bragð í gangi og hellingur af áfengi svo maður er orðinn rallhálfur og farinn að lofa konunni öllu fögru eftir tvo. Guð veit hvað maður væri búinn að lofa upp í ermina á sér eftir fjóra! Þetta er ekki jólabjór sem maður myndi teygja sig í yfir bakstrinum og varla með jólamat - nema fjölskyldan geri alvöru úr því að gerast vegan. Aftur á móti steinliggur okkar maður á jóladjamminu, sem er ekki víst að verði upp um alla veggi í ár en þegar tækifæri gefst til að tjútta, þá er ráð að hóa í Magga.
3 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Gull lite jól white ale ÁN GLÚTENS
4,4%
359 kr
Lífið er stutt og dauðinn þess borgun. Drekkum í dag og iðrumst á morgun. Því má svo bæta við að nafnið á þessum svokallaða "jólabjór lite án glútens" er langt en bragðið að sama skapi vont þrátt fyrir að vera nánast ekki til staðar. Ekki drekka þennan bjór, því þú munt iðrast þess, ekki á morgun heldur strax eftir fyrsta sopa.
0*
--------------------------------------------------------------------------------
Thule jólavjór
5,2%
349 kr
Oj bara. Alveg ógeðslega vondur bjór. Bragðið er eins og maður ímyndar sér að það væri að drekka óvart úr glasinu á náttborðinu hans afa sem hann geymir fölsku tennurnar í á nóttunni.
1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Snjókarl mandarínuöl
4,2%
367 kr
Bjakk! Það eru ekki margir bjórar sem vekja þannig viðbrögð að það heyrist alla leið út á götu. Bjór sem þykist vera að vinna með mandarínur má ekki vera beiskur eins og kokkálaður landafræðikennari.
1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Askasleikir
5,8%
494 kr
Ekki er þetta nú sérlega spennandi. Rauðu og appelsínugulu ölin eru svosem aldrei í sérstöku uppáhaldi hjá Feitabirni en það hlýtur að vera hægt að gera betur en þetta. Bragðið byrjar með mjög litlum látum - sem er aldrei góðs viti - en svo þegar búið er að kyngja tekur við súrt og málmkennt eftirbragð sem fylgir líka einhver skrýtin hundalykt. Feitibjörn er meiri kattamaður og hefur aldrei skilið hvað hundafólk sættir sig við mikinn sóðaskap hjá gæludýrunum sínum. En nóg um það, hér er ekki verið að ræða val fólks á gæludýrum heldur glataðan bjór.
1*
--------------------------------------------------------------------------------
Egils Malt Jólabjór
5,6%
379 kr
Við Íslendingar elskum sum orð og orðasambönd. “Séríslenskt” er eitt þeirra og Feitibjörn veit ekki til þess að sambærilegur drykkur við maltölið góða finnist í öðrum löndum. Það gegnir ýmsum tilgangi árið um kring, má til dæmis nota til að sporna við ógleði, slappleika og timburmönnum og allt eru það nú kvillar sem okkur hættir í auknum mæli til að verða fyrir í skammdeginu. Því er viðeigandi að búa til alvöru áfengt malt sem bætir meltinguna og gefur hraustlegt og gott útlit, eins og sagði einhvern tíma á miðanum. Malt klikkar aldrei - hér á landi á.
4 *
--------------------------------------------------------------------------------
Hátíð í bæ
5,5%
524 kr
Það er svo gaman þegar eitthvað óvænt og frábært gerist um jól og hér er það að gerast. Þessi bjór lætur ekki mikið yfir sér en kemur samt skemmtilega á óvart eins og þegar nýi kærastinn býður þér í fjölskylduboð á aðventunni og allir eru bara eitthvað ógeðslega næs. Grafin fjölskylduleyndarmál og dramaköst bíða kannski eftir þér seinna en akkúrat núna er málið bara að njóta.
4 *
------------------------------------------------------------------------
Gluggagægir DIPA
9%
919 kr
Vá og nammi hvað þetta er mikið konfekt! Gluggagægir fær mann til að sleikja út um, því þetta er alveg brjálæðislega mikill bragðarefur. Alveg sama hvort tilefnið er samvera með ástvinum, einvera útaf dotlu eða geimvera í draumum þínum er Gluggagægir hinn fullkomni ferðafélagi. Sælutilfinning hríslast um taugarnar og eftirbragðið gælir við allan líkamann. Flugeldasýning í glasi!
4 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Gæðingur Jingle Balls
5%
393 kr
1 1/2 *
Einstök Doppelbock
6,7%
499 kr
Svo bregðast krosstré sem önnur. Meðalmennska ræður hér því miður ríkjum, það er lítið kikk í bragðinu, sem er fljótt að hverfa úr vitunum og þú veist ekki hvort þig langar í annan sopa. Tilfinningin minnir á þegar maður hefur óskað sér að fá einhverja bók í jólagjöf, eftir höfund sem maður hefur mætur á en leggur svo bókina frá sér á blaðsíðu 43.
1 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Viking jólabjór
5%
349 kr
Oj.
Í alvöru.
Oj bara.
Það er varla hægt að segja að það sé bjórbragð af þessu gutli, heldur er fyrst og fremst yfirþyrmandi málmbragð eins og maður sé ekki að drekka úr dós heldur snæða hana. Svo fylgir þessu líka undarlegt reykjarbragð, ekki eins og af reyktu kjöti heldur eins og upp úr öskubakka.
1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Skyrjarmur
4,3%
545 kr
Já, það er ekki laust við að maður eigi æskuminningar tengdar skyri og bláberjum. Slíkar minningar eru oft sætar og það er Skyrjarmur líka, sætur eins og stelpan á þar-þar-næsta bæ sem þú hittir allt of sjaldan en yfirleitt í berjamó og þá finnið þið eitthvað til að spjalla um. Áður en þú veist eru komin jól og hún allt í einu mætt á heimreiðina hjá þér með sokka sem hún prjónaði handa þér í jólagjöf. Mörgum árum seinna eruð þið búin að svæfa börnin og fáið ykkur sitt hvorn bláberjabjórinn til að rifja upp hvernig þetta byrjaði allt saman. Vá hvað það er hægt að koma miklum hughrifum í eina flösku af bjór.
4*
--------------------------------------------------------------------------------
Ekkert sérstaklega jólaleg jól
5,2%
487 kr
Ekkert sérstaklega góður bjór. Lime bragðið er alveg yfirþyrmandi og af hverju að búa til jólabjór sem er vísvitandi að vinna gegn anda jólanna? Er ekkert heilagt? Líklega er þetta hugsað fyrir eldri borgara sem eyða jólunum á Tene og hafa hvort sem er ekkert bragðskyn lengur.
1*
--------------------------------------------------------------------------------
Eftir Sex Wild Brett Amber
5,2%
1190 kr
Ef Milan Kundera hefði skrifað jólasögu sem væri sjálfstætt framhald á Óbærilegum léttleika tilverunnar gæti hún fjallað um þennan bjór og kallast Óbærilegt tilgangsleysi jólabjórsins. Það er vatnsbragð af honum. Korktappi í flöskunni á líklega að fá mann til að trúa að þetta sé eitthvað sérstakt og hátíðlegt, en maður spyr sig bara til hvers var verið að taka tappann úr?
1/2 *
----------------------------------------------------------------------
Giljagaur Barleywine
10%
868 kr
Jeremías! Það er svo mikið, margslungið og mergjað bragð af bjórnum að það er best að bíða í svona hálftíma eftir að taka næsta sopa. Hálfur Giljagaur ætti að duga til að koma manni í gegnum að pakka inn hverjum einasta jólapakka. Það er ekki hægt að mæla með því að drekka þetta hratt því bæði er áfengismagnið eins og í ódýru hvítvíni og svo er eftirbragðið sem sagt frekar þaulsetið.
2 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Segull 67 Jóla Bjór
5,4%
399 kr
Fullkomlega meinlaus - eða að mestu leyti. Þeir bjuggu til vél til að búa til hinn fullkomna jólabjór en það sem vélin bjó til er eitthvað sem bragðast næstum því - en ekki alveg - algerlega ekki eins og jólabjór. Ef Feitibjörn væri að gefa einkunnir í prósentum fengi þessi bjór 42%.
2*
--------------------------------------------------------------------------------
Leppur Stout
6,5%
599 kr
Jólin eru tími gleðinnar en það vantar alla kátínu í Lepp að þessu sinni. Apótekaralakkrísinn er allsráðandi og hann er of beiskur fyriir hátíð ljóssins. Einhvers staðar þarna á bak við er smá saltkeimur sem á kannski að minna á purusteikina en tekst það ekki, hughrifin bera mann frekar í vatnið sem snjáldrurnar í Eyjum synda í.
2 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Jóla Kaldi
5,4%
439 kr
Svei attan. Ekki er þetta nú hressandi, bragðgott, hvað þá hátíðlegt eða til þess fallið að gjeðja hjartað. Í stað þess að bragðlaukarnir séu kitlaðir er þetta meira í átt það því að þeir séu áreittir kynferðislega.
1 *
--------------------------------------------------------------------------------
Vetrarævintýrii IPA
7%
775 kr
Hressandi! Það er fyrsta orðið sem kemur í hugann þegar maður tjekkar á þessum nýliða. Hann leynir á sér með talsverðu áfengismagni en ekkert allt of sterku eða afgerandi bragði, heldur skautar fallega um svellið með vindinn í fangið íklæddur efnislitlum nylonbúningi sem kætir og léttir lund. Bragðgóður og glaðlegur drykkur með sætu eftirbragði eins og hlaðborðið í gær sem þú manst ekki alveg hvernig endaði.
3 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Grýla Jólabjór
5,2%
498 kr
Þetta er ansi skemmtileg skessa. Hefðbundinn jólabjór en framleiddur af metnaði og alúð - einkenni bragðsins eru kanill og appelsína sem passar með jólagjafainnpökkun, á hlaðborði með vinnufélögum eða á heimleið á þorláksmessukvöld. Grýla er ekkert að reyna að vera einhver súperstjarna en nær að hitta á gullinsniðið, að vera "venjulegur" jólabjór án þess að vera ódrekkandi.
3*
--------------------------------------------------------------------------------
Þriðji í jólum Belgian tripel
8,5%
795 kr
Úff, hér erum við að tala um alvöru fullorðins konfektmola. Dísætur með mikilli fyllingu eins og fílakaramellu hafi verið dýpt í viskíglas, síðan í koníaksglas, þá hunang og loks englahár. Jólabjór fyrir fólk sem finnst að jólin séu fyrst og fremst fyrir sig. Það má alveg gera vel við sig yfir hátíðarnar og hvernig á að gera það betur en með þreföldum belga?
4 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Ölvisholt heims um bjór hátíðaröl
5%
498 kr
Jólaskapið er orð sem heyrist oft á þessum árstíma og á líklega að tákna einhvers konar afslappaða væntumþykju og brotthvarf frá amstri dagsins. Fyndið því að einmitt fyrir jólin upplifa margir fjölmargar tegundir af streitu og pirringi. Það þarf að klára gjafirnar, redda miðum á Baggalút, græja pössun fyrir jólahlaðborðið og gera örvæntingarfulla tilraun til að finna einhvern sem ennþá á Costco kort og getur hjálpað þér að kaupa þessa helvítis loftsteikarpönnu sem makinn heimtar. Þessi jólabjór kemur manni í þannig jólaskap því hann er allt of rammur á bragðið og það er svo þrálátt að það hálfa væri nóg.
2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Ölvisholt Jóla Jóra kryddaður imperial stout
9,2%
1048 kr
Hér er verið að leika sér með að blanda kryddi og líklega einnig einhverjum bökunarvörum í bjórinn. Ekki að öllu leyti slæm hugmynd og bjórinn lofar góðu til að byrja með. Kryddið verður samt eiginlega of afgerandi og það endar sem hálfgerð gestaþraut að klára úr glasinu. Aðeins minna krydd og þetta hefði líklega steinlegið.
3 *
--------------------------------------------------------------------------------
Jóla kaldi súkkulaði porter
6,5%
525 kr
Dökkur jólabjór getur bæði verið alveg yfirþyrmandi góður en ef eitthvað fer úrskeiðis í hugmyndavinnunni er að sama skapi stutt í algera skelfingu. Hér er um hvorugt að ræða, heldur áferðarmjúkan og hófstilltan mola sem kemur ekki úr dýra konfektkassanum, við erum meira að tala um svona mola sem gæti verið í jóladagatali. Kemur ekki á óvart, sem getur bæði verið gott og slæmt. Niðurstaðan er að þetta er alveg fínt.
3 *
--------------------------------------------------------------------------------
Eitthvað fallegt?
5%
499 kr
Nei og aftur nei. Þú segir ekki sama brandarann þrisvar. Frekar rislitlum pale ale verður ekki bjargað með því að segjast hafa sett jólatré í bruggunarkútinn, jafnvel þótt maður haldi þá að það séu pínu harpixmolar í botninum á glasinu. Er þetta sem sagt ennþá sama jólatréð?
2*
------------------------------------------------------------------------
Hellisálfur imperial potato stout
11%
849 kr
Namm!, þetta er mjög mikið sælgæti sem hefur verið framleitt af mikilli alúð og ást. Bragðið er aðeins í rammari kantinum en hittir samt beint í mark. Bjór sem er tilvalinn á þessum vonskuveðurs-dögum milli jóla og áramóta þegar maður hefur ekkert betra að gera en að hlýja sér með áfengi.
4 *
----------------------------------------------------------------------
Hátíðar Púki hveitibjór
4,2%
519 kr
Hahaha, þessi er nú bara helvíti léttur og skemmtilegur, ljós og gosmikill. Mandarínan er skemmtilega hálf-súr eins og brandari um covidsmit í jarðarför. Fínasti bjór til að sulla í sig yfir Die Hard þegar börnin eru sofnuð og þú mátt ekki vera þunnur í vinnunni á morgun.
3 1/2 *
-----------------------------------------------------------------------
Djús Kristur sour ale
5,6%
798 kr
Sko, ef það á að vinna með súrið um jólin (væri það ekki frekar eitthvað svona Þorrakennt?) þá verður það að vera gert af fullum krafti. Hér er einhver smá vanilla sem heilsar upp á mann í byrjun en deyr svo fljótlega út og eftir situr eitthvert almennt súrt eftirbragð. Hér hefði þurft að gera betur.
2 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Steðji Almáttugur jólaöl
6%
485 kr
Það er bannað að auglýsa áfengi á Íslandi en ef þú býrð til nógu skrýtinn bjór fara allir að tala um hann og þú færð ókeypis markaðssetningu. Steðjamenn sönnuðu þetta þegar bjór úr hvalseistum kom í búðir, seldist auðvitað ekkert en allar hinar tegundirnar frá Steðja ruku út. Næstu jól ætti kannski að prófa að fá spons hjá Appololakkrís til að auglýsa þetta svokallaða jólaöl því hér er á ferð eins konar piparfyllt lakkrísreim í fljótandi formi. Miðinn yrði örugglega út um allt á samfélagsmiðlum en það er ekki víst að mörgum myndi finnast drykkurinn sérlega jólalegur, nú hvað þá bragðgóður.
2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Ölvisholt 24 Barrel Aged
10%
1290 kr
Nú dettur manni í hug frumlegt húsráð fyrir fólk sem kýs að fá sér lifandi jólatré. Eins og við vitum er mikilvægt að jólatréð fái nóg af vatni yfir hátíðirnar því annars er hætt við að barrið fari að þorna og detta af með tilheyrandi þörf fyrir að draga fram ryksuguna. Svo er það altaf pirrandi þegar kemur að þrettándanum og það þarf að bisast með tréð út úr húsinu, því þá er yfirleitt slóð af barrnálum á gólfinu sem maður losnar aldrei almennilega við og er oft að finna stöku nál og nál alveg fram á sumar. Hér er sem sagt komið ráð við því. Á þrettándanum má hella einni flösku af þessu sulli í jólatrésfótinn og bíða svo rólegur í smástund. Réttast er að halda hæfilegri fjarlægð frá trénu því áður en varir hrynur allt barrið af því í einni svipan. Þá er hægt að sækja kúst og fæjó, hreinsa hrúguna upp því nú er hún öll á einum stað, og þá er mun auðveldara að koma trénu út. En varist að innbyrða vökvann.
0*
--------------------------------------------------------------------------------
Svartálfur potato porter
6,4%
677 kr
Það vita það ekki margir en Feitibjörn er mikill listakokkur og sérstaklega hefur hann oft náð að töfra fram frábæran veislumat á jólum og páskum. En það er eitt sem aldrei hefur tekist almennilega og það er að búa til gömlu góðu brúnuðu kartöflurnar, þær fara einhvern veginn alltaf í klessu hjá okkar manni. Þessi jólin mætti prófa að brydda upp á þeirri nýjung að brúna kartöflurnar upp úr þessum svokallaða kartöflubjór. Það væri alla vega betri nýting á bjórnum en að drekka hann.
1 *
--------------------------------------------------------------------------------
Hóhóhó Brown Ale
6,8%
579 kr
Jú, hér er bjór sem kemur barasta til dyranna eins og hann er klæddur, smá hnetuilmur vekur hjá manni væntingar en bjórinn sjálfur er síðan bara nokkuð solid og heiðarlegur brúnn jólabjór. Hann er ekkert að þykjast vera að klæða sig í rándýrar tuskur úr Herragarðinum en nær hins vegar bara alveg að púlla þetta eins og eldri borgararnir sem leika í Dressmann auglýsingunum.
3 *
--------------------------------------------------------------------------------
Smiðjan Brugghús Choc Ho Ho
4,7%
689 kr
Súkkulaði er jólalegt. Bjór er jólalegur. Súkkulaðibjór ætti því að vera mjög jólalegur en það þarf að passa sig að missa ekki alla Swiss Miss dolluna út í bjórglasið. Reyndar er örugglega ekki um Swiss Miss að ræða því bragðið er af mjög dökku kakói, en pælingin er sú sama, það er allt of mikið af því.
2*
--------------------------------------------------------------------------------
Jólaböl
8%
850 kr
Vitiði það að þetta er mjög gott. Jólalegur keimur bæði af lykt og bragði, einhver greninálastemmning sem er alls ekki sjálfgefið að gangi upp en gerir það svo sannarlega. Bjórinn sem maður tekur með sér þegar kemur að hinni árlegu ferð í kirkjugarðinn að leggja krans á leiðið hans pabba. Sá gamli fær í mesta lagi einn sopa, ekki tímir maður meiru á látið fólk.
4 *
--------------------------------------------------------------------------------
Hurðaskellir
11,5%
1290 kr
Einn af bestu jólabjórum allra tíma glímir við of miklar væntingar sem erfittt er að standa undir. Enn er óskaplega glæsilegt lakkrís- og súkkulaðibragð í gangi með dass af viskí, vindlingum og villtum meyjum. Pínu vanilla gerir vart við sig og kemur á óvart, ekki endilega skemmtilega. Jújú, auðvitað er þetta geggjaður bjór en þessi ofboðslega fullkomnun sem Hurðaskellir kom með í sinni fyrstu heimsókn til byggða er ekki lengur til staðar, ekki frekar en fimmti heróínskammturinn er jafngóður og sá fyrsti.
3 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Segull 67 Hátíðar original
5%
399 kr
Svo vondur bjór að það er eiginlega afrek. Það helsta sem hægt er að líkja þessu við er gamalt og staðið Sinalco sem finnst fjórum árum eftir barnaafmæli í glasi sem einnig inniheldur mylsnu af snakki og tekexi.
1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Jólaálfur Lager Ale
5,4%
418 kr
Mikið frábærlega er gaman að drekka þennan krúttlega jólabjór. Hann er sætur og ávaxtakenndur, með attitjúd bak við fallegt brosið og mættur til að koma þér í stuð. Jólalegur í meira lagi án þess að þurfa til þess jólatré eða niðursuðuvörur, bara hárrétta tilfinningu fyrir hátíðarstemmningu og hittir beint í mark.
4 *
--------------------------------------------------------------------------------
Ölvisholt jólabjór reyktur bock
7,2%
655 kr
Nú er Feitibjörn bæði hissa og glaður. Reyktur jólabjór sem ilmar eins og rammasta hangikjöt og bragðast eins og fjölskylduboð þar sem framliðnir ástvinir birtast í logum kertanna.
Bragðlaukarnir eru kitlaðir í allar áttir og hjartaræturnar volgna með hverjum sopanum. Fjári gott bara.
4 1/2 *
--------------------------------------------------------------------------------
Ummæli
Verður án nokkurs vafa farið yfir listann fyrir jólinn. Súkkulaðiporterinn er þó skylda á Aðfangadagskvöldið með steikinni en Belgian triple og Mandarínuölið virkar líklegt til að rata á jólaborðið.