Jólabjórrýni Feitabjarnar 2015
Gleðilega hátíð elsku vinir og vandamenn. Nú styttast
dagarnir og kólnar í veðri og landinn fer að finna fyrir kvíða gagnvart
kreditkortareikningi febrúarmánaðar. Eins og áður tekur Feitibjörn að sér að
forða ykkur frá óþarfa fjárútlátum með því að fórna eigin fjármunum, heilsu og
lifurendingu. Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikil þörf fyrir þetta
þjóðþrifaverk eins og í ár því þrátt fyrir að veruleikafirrtir
milljarðamæringar reyni að telja okkur trú um að kaupmáttur hafi aldrei áður og
hvergi annars staðar verið meiri en hér og nú er alveg öruggt að mörg veltum
við hverri krónu áður en henni er eytt og höfum ekki efni á því að eyða
súrt-samanspöruðum skildinum í vondan bjór, hvað þá á sjálfri aðalbjórhátíð
ársins, jólunum.
Því miður verð ég að tilkynna ykkur að nú í ár þarf að hugsa vel og lengi um hverja einustu krónu
sem eytt er í jólabjór og það er ekki bara vegna þess að milljarðamæringarnir
ljúga og við höfum það alls ekki eins gott og þeir halda. Það er ekki heldur
vegna þess að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin og þetta verði hin hinstu jól
áður en við sökkvum til botns í eilíft Ramadan-hald eins og fávísir
flugvallarvinir vilja að við höldum. Nei, nú í ár er lífsspursmál að verja
krónunum skynsamlega í jólabjórkaup einfaldlega vegna þess að árið 2015 er
eitthvert slappasta jólabjórár sem Feitibjörn man eftir. Hugsanlega mun þeirra
verða minnst í framtíðinni sem nördabjórajólanna því það er ekki laust við að
almenn tilgerð og stælar einkenni ýmislegt af því sem er í boði. Það á við um
skárri bjórana en þeir vondu eru hins vegar lausir við alla tilgerð í ömurleika
sínum. Soldið eins og framsóknarþingmenn hvað það varðar.
Ekki það að það sé sterkasta hlið Feitabjarnar að muna í
smáatriðum afleiðingar bjórdrykkju sinnar, en það er önnur saga.
Það er best að drífa í að útskýra hvernig jólabjórrýni
Feitabjarnar var framkvæmd á þessu herrans ári. Undanfarin nokkur skipti hef ég
notið góðs af aðstoð míns hundtrygga sædkikks sem Kristófer heitir og kennir sig
við Kopp. Að þessu sinni þurfti hann frá að hverfa sakir flensuskíts og var ég
því einn á báti. Aðrar aðstæður höguðu því þannig að ekki reyndist unnt að
ljúka jólabjórsmökkun á einu kvöldi líkt og venja hefur verið heldur dreifðist
smökkun yfir heila fimm daga.
Sú breyting var gerð nú í ár að heiti björanna sem smakkaðir
voru var ekki á huldu líkt og nokkur síðustu ár og reyndist það þegar upp var
staðið ekki hafa sérlega mikil áhrif á niðurstöður. Dreifingin mikla varð hins
vegar til þess að samanburður var öllu erfiðari – hvort er þessi bjór sem ég
smakka á mánudegi eilítið betri eða verri en annar sem ég smakkaði síðastliðinn
föstudag? Því var brugðið á það ráð í lokin að blindsmakka fjórar tegundir sem
framarlega stóðu og þóttu jafnar.
Niðurstaðan liggur nú fyrir og best að eyða ekki tímanum í
innantómt mas heldur vinda sér beint í umsagnir og einkunnagjöf. Þar sem nýtt
námsmat hefur enn ekki verið formlega innleitt í grunnskólum landsins verður
eftir sem áður notast við fimm stjörnu kerfi. Við sjáum svo til hvort á næsta
ári verði gefnar einkunnir í bókstöfum, með eða án plúsa og mínusa. Bjórarnir
eru taldir upp í þeirri röð sem þeir voru smakkaðir, fyrir utan þá hefð að
besti jólabjór ársins að mati Feitabjarnar er nefndur síðastur.
Því miður var vínbúðavefurinn með leiðindi þegar reynt var
að sækja myndir af bjórunum svo þið verðið bara að leggja nöfnin á minnið.
Allar tegundir sem yfirhöfuð fást í flösku voru smakkaðar þannig en ekki í dós –
eingöngu Royal og Albani voru smakkaðir úr álumbúðum.
Kaldi súkkulaði porter (6%,
429 kr.)
Bragðgóður en óþægilega gosmikill. Frekar rammur eins og
reyndar ýmsir bjórar í ár og ber ekki mikið á súkkulaðinu. Gosið yfirgnæfir
næstum því bragðið stundum og því er það frekar lengi að koma fram. Stendur
ekki undir frekar ósanngjörnum og óraunhæfum væntingum sem sköpuðust þegar
tilkynnt var með miklum látum að hér væri á ferð einhver mesta snilld sem
Árskógsströnd hefur fært heiminum.
4*
Royal Xmas White (5,6%,
279 kr.)
Fyrsta skynjunin er lykt eins og súr gubbufýla. Gallsúr eins
og síðustu krampakenndu tilraunir deyjandi líkama að losa sig við eitur. Upp
rifjast erfiðustu nóróveirusýkingar sem yfir mann hafa dunið, þegar allur vökvi
líkamans er þrotinn, kókið og maltið í kælinum gera ekkert gagn lengur, þegar
vonin um dauðann ein er eftir. Í þokkabót er svo af þessu yfirgnæfandi
spírabragð. Algjört ógeð eins og venjulega.
0*
Giljagaur (10%,
767 kr.)
Þessi bjór kom á markað fyrir þremur árum og er æði, eins og
að upplifa heila fimm rétta kvöldmáltíð með eðalvínum og gullbrydduðum
eftirmat, allt í einum sopa. Hlýjan blossar upp innra með manni og þó maður
sitji bara í IKEA eldhússtól líður manni eins og einhver hafi laumað arineldi í
gang og vafið mann inn í feld af nýslátruðum Yak-uxa.
Þess má geta að fyrir tveimur árum var boðið upp á
tunnulegna útgáfu af Giljagaur sem hafði legið í koníaksámu í heilt ár. Hann
var mjög góður. Nú í ár var hægt að kaupa sér fyrir álíka pening og maður myndi
eyða í jólakjól á elstu dótturina afganginn af þessari tunnulegnu framleiðslu,
sem nú hefur fengið að vaxa og dafna í flöskunni í tvö ár til viðbótar. Það
hefði verið ósanngjarnt að veita slíkri munaðarvöru keppnisrétt í jólabjórrýni
Feitabjarnar og því var það ekki gert. Hugsanlega kom líka til sú ástæða að ég
tímdi aðeins að kaupa eina flösku og ætla ekki að opna hana fyrr en í fyrsta
lagi á þollák.
4 ½ *
Pottaskefill (6,2%,
525 kr.)
Jólabjór númer fimm í röðinni frá Borg brugghúsi ber nafn
með rentu því það er frekar brennt bragð af honum, eins og möndlugrauturinn
hafi gleymst meðan maður kláraði bjórinn og þurfi að þrífa pottinn í dauðans
ofboði áður en gestirnir koma og hafi ekki önnur áhöld en tunguna. Það er
frostkaldur baðstofukeimur af þessum bjór og hann kemur sterklega til greina
ásamt hangiketi og ákavíti. Að bjórnum loknum væri maður eflaust til í að
skríða undir voð og finna sér einhvern til að ylja.
3 ½ *
Jóla Kaldi (5,4%,
399 kr.)
Skólp, málmur og sígarettuaska eru bragðtegnundirnar sem
koma upp í hugann. Ferlega vondur og sennilega versti Kaldi allra tíma. Það er
allavega ekki hægt að segja að þessi bjór sé óspennandi eða lítið að gerast en
það sem er að gerast er viðbjóðslegt.
1*
Ölvisholt jólabjór (5%,
439 kr.)
Hei, þessi er nú barasta alveg frambærilegur. Á ári hinna
tilgerðarlegu nördajólabjóra sem margir hverjir eru að reyna of margt eða mikið
þá fer þessi bara einföldu leiðina. Þetta er basic jólabjór með smá karamellu,
smá reyk og smá sítruskeim og það má hafa hann við hendina við jólabaksturinn
jafnt sem í innkaupunum. Hér tekst þeim Árnesingum að taka formúluna sem notuð
er í fjöldaframleiðslujólabjórana sem kenndir eru við víkinga, gull, túle og
túborg og hreinlega snýta samkeppninni. Eða skeina henni réttara sagt.
3 ½ *
Egils jólamalt (5,6%,
379 kr.)
Jólamaltið svíkur sjaldan og í ár er það gott en því miður
ekki frábært. Lyktin er kunnugleg og nostalgían hellist yfir mann. “Amma, af
hverju drekkurðu svona mikið malt?” Hins vegar er bragðið ekki alveg nógu
afgerandi, mætti vera meira malt í þessu. Vantar alveg þennan þykka filing sem
maður fékk alltaf af maltextrakt, sem gaf hraustlegt og gott útlit, muniði? Nær
ekki alveg sínum vanalegu hæðum að þessu sinni en er samt góður.
3 ½ *
Steðji jólabjór (5,3%,
395 kr.)
Hér er eitthvað verulega undarlegt á seyði. Fyrst áttar
maður sig ekki almennilega á bragðinu því gosið er svo mikið en svo læðist það
aftan að manni þannig að maður fær smá hroll. Hugurinn fer á flug og lætur sér
detta í hug allskonar óviðeigandi stöff sem gæti verið nýtt til að bragð”bæta”
bjórinn – af hverju þarf að bæta bragðið af bjór? Bragðið af bjór er yfirleitt
mjög gott! Með fleiri sopum verður bragðið smám saman kunnuglegra og reynist
vera frekar daufur lakkrískeimur. Misheppnað.
1 ½ *
Tuborg julebryg (5,6%,
369 kr.)
Oj! Ertu að grínast? Á foraðventunni þetta árið höfum við
fengið kröftuga áminningu um getu mannsandans til að sýna af sér vonsku en
þetta gengur lengra en ég átti von á. Myndin sem kemur upp í hugann er af honum
þarna ógeðslega Nestlé kallinum sem í þessu tilviki segir í myndatexta að góður
jólabjór teljist ekki til mannréttinda. Þessi bjór er svo vondur að hann á
hvergi heima nema á kommentakerfunum.
0*
Viking jóla bock (6,2%,
429 kr.)
Dásamleg dönsk bjórlykt fyllir vitin áður en fyrsti sopinn
kemur á óvart með smá remmu og talsvert mikilli fyllingu í bragði. Einn af fáum
bjórum sem nær að fylla upp í munninn á manni án þess að maður kúgist. Bragðið
er kröftugt án þess að vera yfirþyrmandi og helst lengi í munni, nánast gælir
við bragðlaukana eins og langur, ástríðufullur koss. En auðvitað koss sem á sér
stað eftir talsvert mikla bjórdrykkju beggja aðila. Því það er mikið bjórbragð
af honum.
3 *
Steðji Almáttugur jólaöl (6%,
534 kr.)
Aftur þetta mikla gosmagn. Hvað er að frétta? Það truflar
bragðskynjunina en bragðið er annars áhugavert, ákveðið og afgerandi með
óvæntum saltkeim. En allt kemur fyrir ekki – þetta er ekki að virka. Á einhvern
veginn hvergi við í jólastemmningunni. Óvenjulegur bjór, það má hann eiga, en
einfaldlega ekki sérstaklega góður.
1 ½ *
Thule jólabjór (5,4%,
359 kr.)
Þetta er nú ekki merkilegur jólabjór. Fyrir utan hvað það
hefur alla tíð verið vandræðalega augljóst að hér er verið að stæla Tuborginn –
og tuborginn er ógeðslega vondur! – þá er núna búið að fara alla leið og herma
eftir frægri Tuborg jólabjórauglýsingu. Þar mætir trukkur og keyrir yfir
jólasveininn á sleðanum, sem er kannski ekki alveg málið ef maður ætlar að koma
sér í jólaskap. Þessi bjór bragðast enda eins og að verða fyrir bíl.
1*
Ris a la m’ale (8%,
849 kr.)
Er hægt að ganga lengra? Á þessum nördabjórajólum er hér
kominn Mikkeller – uppáhald hipsteranna, með einhvers konar bastarð á milli jólabjórs
og möndlugrauts. Það eru hrísgrjónaflögur í bjórnum. Hann er bragðbættur með
kirsuberja-essens. Ég elska reyndar gervikirsuberjabragð og Cherry 7-up er
uppáhalds gosdrykkurinn minn svo ég fell fyrir þessu. Þetta er gott en á sama
tíma eitthvað svo rangt. Soldið eins og að vera nauðgað í munninn. Þegar maður
hefur komist yfir aulahrollinn og kyngt fyrsta súra sopanum, þá er þetta
prýðilegur bjór. En ég efast um að ég fái mér annan á ævinni. Og þó…
4*
Viking jólabjór (5%,
335 kr.)
Í fyrra hélt ég samkvæmi fyrir vinnufélaga mina þar sem
allir áttu að koma með jólabjór að eigin vali og við ætluðum að smakka og koma
okkur saman um hver væri bestur og verstur. Sú skemmtilega staða kom upp að
einni í hópnum láðist að hugsa út í að um jólabjórsmökkun væri að ræða og kom
hún því með hinn klassíska gyllta Viking bjór. Ég gerði mikið grin að því þá en
sé eftir því núna því Viking jólabjór bragðast eiginlega alveg eins og gylltur
Viking.
1*
Gæðingur jólabjór (4,7%,
394 kr.)
Einu sinni reyndi ég að brugga mitt eigið öl en skorti
þolinmæði og því varð drykkur sá nær allsendis ódrekkandi. Lyktin var ferleg í minningunni
og rifjaðist upp fyrir mér þegar Gæðingur var borinn upp að vörum. En sem betur
fer er bjórinn frá skagfirska efnahagssvæðinu betur unninn en sullið sem ég bjó
til í denn. Hann sver sig í ætt við marga af jólabjórum ársins – dökkleitur,
með talsvert mikilli fyllingu í bragði og áberandi remmu. Með þeim betri í ár
en samt ekki frábær.
3 ½ *
Royal Xmas Blue (5,6%,
279 kr.)
Loksins fatta ég út á hvað blái liturinn gengur. Lyktin upp
úr glasinu minnir sterklega á hlandskál á sóðalegum rónabar. Menn hafa látið
sér detta í hug ýmislegt til að poppa upp bjór og kalla hann jóla. Þetta er í
eina skiptið sem blái kubburinn úr hlandskálinni virðist hafa verið notaður til
þess. En fyrir utan þessa afar ógeðfelldu lykt er bjórinn ekki eins slæmur og
við var að búast. Hann er vissulega vondur á bragðið og maður er lengi að losna
við bragðið, svipað eins og jólakoss frá tannlausri langömmu. Ekki svo slæmur?
Það sést hvaða væntingar eru hér uppi!
½ *
Red Hook Winterhook (6%,
481 kr.)
Njeee… það er eins og þessi viti ekki hvort hann ætlar að
vera – dökki rammi jólabjórinn með fyllinguna eða karamellubrúni basic
jólabjórinn sem allir geta drukkið. Niðurstaðan er að hann sameinar það versta
úr hvoru tveggja – er rammur og með frekar leiðinlegt eftirbragð en skortir
allan karakter og er frekar einhæfur og óspennadi.
2*
Albani julebryg (7%,
329 kr.)
Hryllingur í einu orði sagt. Bragðast eins og magasýra úr stressuðum
ræstitækni sem sagt var upp störfum í íslensku ráðuneyti í kjölfar síðustu
hryðujuverka.. Sennilega hefur vesalings konan fengið kassa af þessu ógeði í
kveðjugjöf frá vinnuveitandanum. Bara svona til að hann gæti verið viss um að
sparka í liggjandi konu.
0*
Föröya jólabryggj (5,8%,
361 kr.)
Nú er ég hissa. Hér er kominn bragðgóður jólabjór frá
frændum okkar við austfirsku landamærin. Neftóbak! Engin spíralykt! Engin remma
heldur frekar í sætari kantinum. Það er hér með yfirlýst markmið að taka eitt
kvöld á aðventunni og klára að minnsta kosti kippu af þessari snilld og hlusta
á meðan á síversnandi færeyska tónlist: Eivör fyrstu tvo bjórana, svo Týr, loks
Jógvan áður en móðan mikla tekur við…
2 ½ *
Boli jólabjór (7,5%,
449 kr.)
Það vakna blendnar tilfinningar við neyslu þessa bjórs. Hann
er afar bragðgóður, með akkúrat réttu remmunni, ekki of sterkri og kemur manni
beint í hýrt jólaskap. Hins vegar er hann rammsterkur og áfengið snarsvífur á
mann. Áður en maður veit af eru þrír búnir og dómgreindin farin út í veður og
vind. Alls konar ummæli eru látin flakka, bældar tilfinningar láta á sér kræla
og maður er vís til að gera eitthvað heimskulegt af sér. Áfengisbragðið er
reyndar ábernadi sterkt svo það er ekki eins og maður hafi ekki verið varaður
við, en ef maður lætur sig hafa það að klára fyrsta glasið þá hættir það að skipta
máli og voðinn er vís.
3*
N’Ice Chouffe (10%,
999 kr.)
Hér sameinast metnaður ársins í gerð jólabjóra í einu stóru
faili. Allt of gosmikill, allt of bitur á bragðið – minnir næstum því á Fernet
Branca – og það eina góða er að hann er fljótur að hverfa af tungunni og
eftirragðið er sem betur fer fljótt að gleymast. Yfirleitt vill maður langt og
fjölskrúðugt eftirbragð því partur af pointinu með jólabjór er að við erum að
njóta, tríta okkur, treina hvern sopa í smástund áður en sá næsti tekur við. En
nei, hér er blessunarlega laust við það.
Samt svosem alveg vandaður bjór en ekki mikið fyrir þennan
mikla pening.
2*
Jólagull (5,4%,
359 kr.)
Nei og aftur nei. Svona er ekki hægt að bjóða manni upp á.
Egils gull er svo sem einhver glataðasti bjór sem um getur svo maður ætti ekki
að vera hissa. Þessi bjór er vondur. Súr eins og hnefafylli af mandarínuberki,
flatur eins og einhver annar hafi drukkið hann í gær. Svo langt frá því að koma
manni í jólastemmningu að maður er líklegastur til að fara með seríurnar aftur
inn í geymslu og gefa skit í þetta allt saman.
½ *
Jólabjórinn 2015:
Einstök doppel bock (6,7%,
449 kr.)
Hrikalega góður. Á jólabjórári þar sem fátt var um fína
drætti er sem betur fer einn sem fer með himinskautum. Það var ljóst í fyrri
smökkun að hér væri á ferð sterkur kandídat að sigra þetta árið og þegar kom að
blindprófun þá einfaldlega rúllaði hann samkeppninni upp. Bragðið er í senn
milt, stillt og villt og ekki skaðar að prófa að hella honum í glas með breiðu
opi sem gefur lyktinni færi á að njóta sín. Hangikjöt, jólabakstur,
gjafainnkaup og þessi síðasti á þorláksmessukvöld sem þú áttar þig á yfir
kalkúnafyllingunni næsta morgun að hefði mátt missa sín – Einstök er ávallt
einstök.
5 *
Ummæli