Ferðin til Slóvakíu - 3. kafli

Á efri hæð umferðarmiðstöðvar Bratislavaborgar standa tveir gamlir Ikarus-strætisvagnar sem búið er að breyta í kaffihús. Já. Í alvöru. Ég hefði sennilega frekar átt að taka rútuna strax eins og kemur betur í ljós síðar. En mig langaði að skoða mig um í Bratislava sem ég hef alltaf haldið að hlyti að vera mjög falleg borg í klassískum mið-evrópskum anda. En nei. Allavega ekki í grennd við umferðarmiðstöðina. Það tók mig fjórar mínútur að fatta þetta og þá var rútan farin og ekki annað í boði en að finna sér bjór. Eftir að hafa vafrað um umferðarmiðstöðina þvera og endilanga endaði ég fyrir slysni nógu nálægt Ikarus-tvíburunum til að sjá að þar inni stóð fýld stelpa á bak við afgreiðsluborð. Ég fann dyr en á þeim var skilti með slóvakískum texta sem ég skildi ekki. Sem betur fer var neðan við textann píla sem benti til vinstri. Þannig að ég fann næstu dyr, opnaði og gekk inn. Fýlda stelpan hellti sér yfir mig á slóvakísku og þegar ég skildi ekki strunsaði hún að innganginum og skellti hurðinni aftur. Ég minni á að þetta er innandyra. Og endurnýttur strætisvagn. Kannski fylgir óhjákvæmileg fýla því að starfa í strætisvagni, þótt það sé búið að breyta honum í kaffihús. Jæja, ég fékk einn bjór og settist við eldgamla tölvu (korter á netinu kostaði 50 evrusent) og rifjaði upp gamla Windows XP takta. Náði að kíkja aðeins á feisbúkk og viðhalda bjórfréttastatus, dreif mig svo á klóið því framundan átti að vera rúmlega 3ja tíma rútuferð - reyndar hafði rútan frá Vín verið mjög nýtískuleg og þægileg þannig að ég kveið þessu ekki. Það kostaði tíu evrusent að fá að pissa. Rútan reyndist vera frá blómaskeiði kommúnismans og þegar hún loks kom á endastöð í borginni Zilina var ég orðinn ansi aumur í afturendanum. Rútan var hálftíma of lengi á leiðinni - ef ég hefði tekið þá fyrri hefði ég grætt klukkutíma.

Hótelið er hins vegar algjört æði - byggt í fyrra sko - ég er ekki í herbergi heldur íbúð. Eini gallinn við það er að ég get þá ekki sofnað út frá sjónvarpinu. En eftir 15 tíma ferðalag (og mjöög vel útilátinn mat á hótelinu) verð ég ekki í miklum vandræðum með að sofna.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2021

Feitibjörn tekur pásu

Jólabjórrýni Feitabjarnar 2022